Kófið og hrunið: lærdómur og leiðin fram á við

Ný greining sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar verður kynnt á veffundi.

Ný greining sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um áhrif COVID-faraldursins á launafólk eftir atvinnugreinum verður kynnt á veffundi þriðjudaginn 15. desember klukkan 11. Dregin verður upp mynd af áhrifum kófsins 2020 á atvinnugreinar og launafólk í landinu í samanburði við áhrifin af hruni íslenska fjármálakerfisins fyrir rúmum áratug.

Við hvetjum áhugasama til að skrá sig til leiks á Facebook-viðburði sem hefur verið stofnaður fyrir fundinn.

Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM, mun kynna greininguna fyrir hönd sérfræðingahópsins og varpa ljósi á hvernig heimsfaraldurinn kemur niður á mismunandi hópum samfélagsins. Gefa niðurstöðurnar mikilvægar vísbendingar um þau efnahagslegu og samfélagslegu viðfangsefni sem takast þarf á við á næstu misserum og árum.

Að kynningu lokinni munu Drífa Snædal, forseti ASÍ, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, ræða efni greiningarinnar, nauðsynlegar aðgerðir og næstu skref.

Viðburðurinn verður um 45 mínútur og verður í streymi. Hægt er að smella hér til að fara inn á fundinn stuttu áður en hann byrjar.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ og formaður sérfræðingahópsins, stýrir fundinum. Að streyminu loknu gefst fjölmiðlum tækifæri til að ræða við forystukonurnar.

Sérfræðingahóp verkalýðshreyfingarinnar skipa:

  • Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, formaður
  • Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum
  • Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB
  • Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði
  • Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM
  • Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði

Ásgeir Sverrisson, sérfræðingur hjá ASÍ, starfar með hópnum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?