Hverjir eiga hagsmuni af óbreyttu ástandi?

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Opinber umræða einkennist af þeim meginstefum að Ísland sé ríkt land, jöfnuður sé hvað mestur í alþjóðlegum samanburði og að hér sé gott að búa. Kannanir Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins sýna hins vegar að aðgerðir skortir tilfinnanlega fyrir stóra hópa. Börn eru sá hópur í íslensku samfélagi sem er útsettastur fyrir fátækt en það eru börn einstæðra foreldra, öryrkja eða innflytjenda.

Þegar bent er á þetta er gjarnan brugðist við með vörn fyrir það sem hefur áunnist. Haldið er að okkur þeim áróðri að hver sé sinnar gæfu smiður og það sé einstaklingsins að tryggja eigin lífsgæði. Látið er að því liggja að það sé einfalt að lyfta sér úr fátækt með því einu að vera duglegri, vinna meira eða mennta sig. Mótvindarnir í lífi fólks eru ólíkir og ef mælikvarðinn er dugnaður er ljóst að láglaunafólk vinnur lengri vinnuviku en önnur og einstæðir foreldrar þá allra lengstu þegar ólaunuð vinna er tekin með í reikninginn.

Þegar kemur að umræðu um að aðgerðir þurfi til að auka velferð fólks er andsvarið iðulega að það kosti of mikið - án þess að það sé rætt hvað það kostar að gera ekki nóg. Allt er þetta til þess fallið að draga athygli okkar frá kjarna málsins. Við þurfum skýra framtíðarsýn um hvernig við tryggjum velferð og velsæld fyrir alla hópa samfélagsins – í stað tilviljunarkenndrar umræðu og metnaðarleysis við að styrkja og verja grunnstoðir samfélagsins.

Getum við sameinast um það grundvallarmarkmið að öll búi við húsnæðisöryggi í heilnæmu húsnæði á viðráðanlegu verði? Besta leiðin til að tryggja það er að ríki og sveitarfélög veiti að lágmarki stofnframlög til 1000 íbúða í almenna íbúðakerfinu árlega en það kerfi samanstendur af óhagnaðardrifnum leigufélögum.

Erum við ekki öll sammála um að við viljum að skólakerfið okkar sé meðal þeirra bestu í heimi? Þá þurfum við að auka fjárveitingar til leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, til efla stoðþjónustu við börn, bæta aðbúnað, starfsumhverfið og kjör starfsfólks.

Viljum við ekki öll framúrskarandi heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að bíða vikum og mánuðum saman eða borga hana dýru verði? Til að svo megi verða þarf að fjölga starfsfólki á heilbrigðisstofnunum landsins og fjárfesta með myndugleik í hentugu húsnæði og nýjustu tækjum.

Kostnaður samfélagsins við að vanrækja húsnæðisöryggi, heilbrigðisþjónustu, menntun og stuðning við barnafjölskyldur er gríðarlegur. Allar þær aðhaldsaðgerðir sem þessi öld einkennist af, bitnar einmitt sérstaklega illa á þeim hópum sem búa við þrengstu fjárhagsstöðuna. Samhliða því sem þjónusta hefur verið að skerðast smátt og smátt hafa tekjutilfærslukerfin, barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur, verið látin rýrna að verðgildi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bæta barnabóta- og húsnæðisbótakerfið í tengslum við kjarasamninga síðastliðið vor eru sannarlega mikilvægar en mun meira þarf til svo að einstæðir foreldrar, öryrkjar og stórir hópar innflytjenda lifi með reisn og búi við fjárhagslegt öryggi.

Þessi framtíðarsýn getur orðið að veruleika ef við sameinumst um að láta verðmætasköpunina skila sér betur í okkar sameiginlegu sjóði, brettum upp ermarnar og byggjum upp samfélagslegu stofnanirnar og stuðningskerfin sem við eigum saman. Spyrja verður þau sem halda því fram að þetta sé ekki hægt - hverjir það eru sem hafa hagsmuni af því að viðhalda óbreyttu ástandi?

Greinin birtist í Heimildinni 23. ágúst.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?