Ríkið, sveitarfélög og stéttarfélög eiga að hjálpast að við að stytta vinnuvikuna, enda sýna niðurstöður tilraunaverkefnis að líðan starfsmanna batnar og veikindi minnka þegar vinnuvikan er stytt, án þess að það komi niður á framleiðni.
Þetta kemur fram í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag sem Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, Sóley Tómasdóttir, formaður borgarráðs, og Magnús Már Guðmundsson borgarfulltrúi skrifa. Greinin birtist einnig á Vísi. Greinarhöfundar sitja öll í stýrihóps sem unnið hefur að tilraunaverkefni um styttri vinnuviku hjá Reykjavíkurborg.
Greinina má lesa hér að neðan.
Styttri vinnuvika virkar
Líkamleg og andleg líðan og starfsánægja mælist marktækt meiri á tveimur starfsstöðvum Reykjavíkurborgar sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar. Á sama tíma mælist enginn munur á viðhorfi til þjónustu eða opnunartíma.
Undanfarna 14 mánuði hefur tilraunaverkefnið staðið yfir en það nær til tveggja starfsstöðva borgarinnar, Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Barnaverndar Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðinni er lokað klukkutíma fyrr alla virka daga en skrifstofu Barnaverndar er lokað eftir hádegi á föstudögum. Bakvakt og neyðarþjónustu hefur verið sinnt með sama hætti og áður utan hefðbundins opnunartíma.
Nú liggja fyrir niðurstöður eftir fyrsta árið og þær benda til jákvæðra áhrifa verkefnisins. Betri líðan og starfsánægja mælist marktækt meiri á tilraunavinnustöðunum en samanburðarstaðnum. Sömuleiðis dregur úr veikindum á tilraunavinnustöðunum en ekki á samanburðarstaðnum og engar breytingar er að merkja á hreyfingum í málaskrá hjá Barnavernd. Yfirvinna eykst hjá Barnavernd vegna bakvakta á föstudögum en ekki að öðru leyti. Almennt virðist starfsfólk hafa aðlagast verkefninu vel og ánægja ríkir með fyrirkomulagið.
Það er mat stýrihópsins sem haldið hefur utan um tilraunaverkefnið að niðurstöðurnar sýni að brýnt sé að halda verkefninu áfram og afla frekari gagna á tilraunastöðunum tveimur, mæla áhrif til lengri tíma, enda hætta á að langtímaáhrif kunni að vera önnur en þau sem mælast eftir eitt ár. Að auki leggur stýrihópurinn til að tilraunin nái til fleiri starfsstöðva borgarinnar og verður slík tillaga lögð fram á næstu vikum. Jafnframt er lagt til að farið verði í samstarf við háskólasamfélagið um frekari rannsóknir, þar á meðal að kanna áhrif verkefnisins á heimilishald og fjölskylduaðstæður. Enn fremur verði óskað eftir samstarfi við starfshóp ríkisstjórnarinnar um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar sem senn hefur störf.
Ríki, sveitarfélög og stéttarfélög eiga að hjálpast að því styttri vinnuvika er hagur okkar allra. Það er því til mikils að vinna.