Heiður hagfræðingur BSRB

Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur

Heiður Margrét Björnsdóttir hefur hafið störf sem hagfræðingur BSRB – heildarsamtaka starfsfólks í almannaþjónustu. Um er að ræða nýja stöðu á skrifstofu BSRB.

Heiður býr yfir umfangsmikilli reynslu af opinberum fjármálum og stefnumótunarvinnu tengdri ríkisfjármálum, velferðar- og heilbrigðismálum og jafnréttismálum. Undanfarin 9 ár hefur hún starfað hjá Stjórnarráði Íslands, lengst af hjá forsætisráðuneyti en einnig hjá velferðarráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Þá hefur hún starfað hjá skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Heiður hefur lokið B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og er auk þess með meistaragráðu í fjárfestingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík annars vegar og þróunarhagfræði frá Háskólanum í Glasgow hins vegar.

Heiður mun annast greiningar á velsæld og efnahagsmálum, safna saman og tryggja gott aðgengi að upplýsingum um vinnumarkaðinn og byggja þannig undir stefnumótun bandalagsins.

„Það er virkilega gaman að bæta þessum öfluga liðsmanni við teymið okkar. Það eru stór verkefni framundan hjá okkur hjá BSRB, ekki síst nú í aðdraganda kjarasamninga, og ég veit að reynsla og þekking Heiðar mun styrkja okkur í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu,“ segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdarstjóri BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?