Í tilefni af jafnréttisviku sem haldin verður í aðdraganda jafnréttisþings býður BSRB til morgunverðarfundar. Á fundinum munu Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir vera með fyrirlestra um kynskiptan vinnumarkað. Finnborg Salome er MA-nemi í kynjafræði og Gyða Margrét er lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands.
Finnborg mun fjalla um stöðu lögreglukvenna og um vinnumenningu lögreglunnar, viðhorf til kvenna, einelti og kynferðislega áreitni innan lögreglunnar. Erindi hennar byggir á nýútkominni skýrslu sem hún vann í samstarfi við embætti Ríkislögreglustjóra.
Gyða Margrét mun fjalla um kynskiptan vinnumarkað, helstu orsakir, afleiðingar og möguleg viðbrögð stéttarfélaga við þeirri þróun. Gyða Margrét hefur sérhæft sig í kynskiptum vinnumarkaði og skrifaði doktorsritgerð um efnið sem ber heitið: „Vinnumenning, kynjatengsl og fjölskylduábyrgð.“
Morgunverðarfundurinn hefst kl. 8:45 en fyrirlestrar kl. 9 fimmtudaginn 31. október n.k. og verður haldinn í fundarsal 1. hæðar Grettisgötu 89.
Morgunverðarfundurinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.
Þátttakendur eru vinsamlega beðnir um að skrá sig með tölvupósti til Ásthildar asthildur@bsrb.is fyrir 30. október n.k.