Framkvæmdastjóra SA svarað

Formenn þriggja aðildarfélaga BSRB, sem hafa undanfarnar vikur átt í árangurslausum kjaraviðræðum við Isavia, hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Þorsteins Víglundssonar framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í morgun. Yfirlýsinguna má sjá hér að neðan:

Afar sérstakt viðtal birtist við Þorstein Víglundsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA) í morgun. Þar tjáir hann sig um kjarabaráttu félagsmanna FFR, SFR og LSS við ríkisfyrirtækið Isavia. Sá tónn sem kemur fram í viðtalinu við  framkvæmdastjórann skýrir vel hvernig stendur á því að samningaviðræður hafa gengið illa frá upphafi. Samningamenn Isavia og SA hafa ekki haft umboð nema til að hafna réttmætum kröfum launafólks. Línan frá SA er ljós; ómenntaður lýðurinn á ekki að hafa betri kjör en þetta. Það er nægjanlegt að þetta fólk rétt slefi yfir lámarksgrunnlaun eftir áralangt starf. 

Hverjar eru staðreyndir málsins varðandi laun þess hóps sem nú á í kjarabaráttu við Isavia? Langfjölmennasti einstaki hópurinn sem stendur í kjarabaráttunni eru öryggisverðir. Launasetning þessa hóps er á þann veg að meðalgrunnlaun eru 250.000.- kr. á mánuði og meðalheildarlaun eru 380.000.- kr. á mánuði. Þetta eru heildarlaun fólks sem vinnur vaktavinnu allt árið um kring. Þar með er talin vinnuskylda á helgidögum, sérstökum almennum frídögum og stórhátíðum, bæði páskum og jólum. Síðan er vert að geta þess að vinnuálag er í beinu samhengi við stóraukinn ferðamannastraum og umsvif Isavia.

Kröfur stéttarfélaganna beinast fyrst og fremst að nokkrum afmörkuðum þáttum;

  • hækkun allt of lágra gunnlauna
  • eðlilegri launaþróun
  • lagfæringum á vinnufyrirkomulagi sem fyrir löngu er úr sér gengið
  • viðurkenningu á menntunarkröfum sem gerðar eru í sérstök störf


Framkvæmdastjóri SA hefur látið hafa eftir sér að það komi ekki til greina að semja við stéttarfélögin um þær réttmætu áherslur sem þau hafa sett fram. Það væri ekki úr vegi að framkvæmdastjórinn íhugaði orð sín af aðeins meiri kostgæfni. Kröfur stéttarfélaganna eru bæði sanngjarnar og sjálfssagðar.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?