„Árin eftir hrun hafa verið launafólki mjög erfið, megin byrðar efnahagshrunsins hafa verið bornar af launafólki sem hefur mátt sætta sig við hækkun nánast allra tölfræði þátta sem mælikvarðar ná yfir – nema kannski launa sinna,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB á ráðstefnu BSR og ASÍ í morgun.
Umfjöllunarefnið að þessu sinni var „Hlutverk stéttarfélaga í samfélaginu“. Ráðstefnan stendur nú yfir á Grand hóteli í Reykjavík og hægt er að fylgjast með henni hér á heimasíðunni www.1mai.is
„Auðvitað er megin hlutverk stéttarfélaga að gæta sem best hagsmuna félagsmanna sinna. Semja um kjör fyrir þeirra hönd, gæta réttinda þeirra og vera til aðstoðar ef upp koma álitamál í samskiptum við atvinnurekendur. Þetta er hið augljósa hlutverk stéttarfélaganna og jafnframt það sem mestum tíma er varið í. En við ætlum hér í dag að skoða aðeins víðari hlutverk stéttarfélaganna og hvernig við sjáum fyrir okkur að þau þróist á komandi árum,“ sagði Elín Björg jafnframt og bætti við:
„Það er ekki hlutverk okkar í verkalýðshreyfingunni að breyta hugsunarhætti fólks þannig að það falli betur að því hvernig við störfum. Ég held frekar að það sé stéttarfélögunum nauðsynlegt að skoða betur starfshætti sína og þannig koma betur til móts við vilja yngri kynslóða og virkja þær í starfi okkar. Stéttarfélög hafa ríkum skyldum að gegna í samfélaginu og þær skyldur ná yfir meira en bara að tryggja félagsmönnum sínum besta samninginn hverju sinni. Í gegnum tíðina hafa stéttarfélögin haft áhrif á hvernig við byggjum samfélag okkar upp og hvernig gæðunum er skipt. Þetta hlutverk hefur innan sumra stéttarfélaga fengið minna vægi á undanförnum árum,“ sagði Elín Björg og sagði ástæðurnar fyrir þessu að hluta vera að finna innan stéttarfélaganna sjálfra.
„Önnur ástæða, og sú sem að mínu viti vegur mun þyngra, er að stjórnmálamenningin hefur breyst á þann veg að litill vilji er til samráðs. –Þrátt fyrir fögur fyrirfeit í viljayfirlýsingum og stjórnarsáttmálum,“ sagði Elín Björg.
Ráðstefnan hófst núna í morgun kl. 8:20 og stendur yfir til rúmlega 10. Hún er haldin í aðdraganda 1. maí og líkt og áður var minnst á er hægt að fylgjast með streymi ráðstefnunnar á heimasíðunni 1maí.is. Dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér að neðan.
Dagskrá
08.20-08.40 Staða og hlutverk stéttarfélaganna í samfélaginu – Gylfi Arnbjörnsson
08.40-08.55 Stéttarfélögin og félagsmaðurinn – Árni Stefán Jónsson
08.55-09.10 Stéttarfélögin og félagsmaðurinn – Sigurrós Kristinsdóttir
09.10-09.25 Viðbrögð og spurningar
09.25-09.35 Hvernig eiga stéttarfélögin að þróast? - Ingólfur Björgvin Jónsson
09.35-09.45 Hvernig eiga stéttarfélögin að þróast? – Þórdís Viborg