Undirbúningur fyrir styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu heldur áfram. Í því ferli á að bjóða öllu starfsfólki í vaktavinnu sem vinnur hlutastörf að hækka starfshlutfall sitt samhliða styttingu vinnuvikunnar.
Stytting vinnuvikunnar á vaktavinnustöðum mun taka gildi 1. maí næstkomandi. Nú eiga starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem ekki eru í fullu starfshlutfalli að hafa fengið boð um að hækka starfshlutfallið. Þannig getur starfsfólkið haldið svipuðum tímafjölda en hækkað laun sín, oft umtalsvert.
Það er réttur starfsfólks í hlutastarfi í vaktavinnu að auka við sig starfshlutfallið sem nemur styttingunni. Þrátt fyrir það mun það starfsfólk sem ákveður að fara þessa leið öllu jöfnu vinna færri stundir á mánuði en það gerir í dag. Ástæða þess er að eftir er að taka mið af vægi vinnustunda. Fjallað er um vægi vinnustunda í stuttu myndbandi sem hægt er að horfa á hér.
Starfsfólki sem vinnur í vaktavinnu hjá ríki eða sveitarfélögum og er í hlutastarfi en hefur ekki fengið boð um að hækka starfshlutfall sitt er bent á að hafa samband við sinn stjórnanda. Stéttarfélag viðkomandi getur einnig aðstoðað, reynist þess þörf.
Við bendum á vefinn betrivinnutimi.is þar sem fjallað er um styttingu vinnuvikunnar. Vaktavinnufólk ætti sérstaklega að kynna sér þær breytingar sem framundan eru.