Flúði frá Bosníu - Nú ráðherra í Svíþjóð

Ræða hinnar sænsku Aidu Hadzialic á þingi Evrópusambands verkalýðsfélaga, ETUC, hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Aida er sjálf flóttamaður frá Bosníu sem flúði með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar sem barn. Nú er hún ráðherra í sænsku ríkisstjórninni þar sem hún ber m.a. ábyrgð á menntun á framhaldsskólastigi og fullorðinsfræðslu.

Í ræðu sinni fjallaði Aida um reynslu sína af því að flýja heimaland sitt vegna ofsókna, stríðsástands og ofbeldis.

„Ég hef horft í augun á illskunni – þjóðernishyggjunni. Svíþjóð tók okkur með opnum örmum og fyrir það er ég gríðarlega þakklát,“ sagði Aida m.a. í ræðu sinni sem snerti við mörgum sem á hana hlýddu.

„Ég fæddist í Foca, meðalstórum bæ við ánna Drinu, suðaustur af Serajevó. Drina átti síðar eftir að verða kölluð blóðáin,“ sagði Aida sem rifjaði upp í ræðu sinni að hún hefði fyrst heyrt af yfirvofandi stríði þegar hún var fimm ára og gekk á brúnni yfir umrædda á ásamt móðurbróður sínum.

„Maður gaf sig á tal við frænda minn og sagði að stríð væri hafið í Króatíu. Þeir ræddu saman og voru á því að stríðið myndi ekki berast út til okkar. Skömmu síðar voru hermenn á öllum götum. Foreldrar mínir töluðu um að flýja burt en við komumst hvergi vegna útgöngubanna. Fyrir utan glugganna heyrðust skothvellir og fjölskyldan svaf á gólfinu. Foreldrar mínir lásu fyrir mig hverja bókina á eftir annarri enda komumst við hvergi. Ég upplifði mig samt örugga, enda fimm ára og í faðmi foreldra minna,“ sagði Aida.

„Dag einn var bankað á dyrnar. Byssumaður ruddist inn og heimtaði öll verðmæti sem við áttum. Hann hvatti foreldra mína til að flýja þegar í stað og sagði að þau mættu vera þakklát fyrir að hann notaði ekki byssuna á þau,“ sagði Aida sem staldraði að þessu loknu við í góða stund enda tók það augljóslega mjög á hana að rifja atburðina upp. Hún sagðist reglulega velta því fyrir sér hvernig fólk, sem sameinaðist um að halda vetrarólympíuleikana árið 1984 og stóð saman sem heild, hafi örfáum árum síðar verið í borgarastríði sem byggði aðeins á þjóðerniskennd.

„Ég hef horfst í augu við illskuna – þjóðerniskenndina. Við neyddumst til að kveðja allt sem þekktum, skilja allt eftir og flýja. Afleiðing þjóðernishyggjunnar var stríð, eyðilegging og þjóðarmorð. Lítið barn sem upplifir þetta missir alla von. Ég missti nána ættingja og litlu munaði að ég týndi lífinu sjálf.“

Aida sagði að hún hafi aftur öðlast tiltrú og von þegar Svíþjóð tók fjölskyldu hennar með opnum örmum. Hún hafi margsinnis séð hið góða í mannfólkinu frá því að hún fluttist til Svíþjóðar.

„Fyrst og síðast fann ég til öryggis. Fyrir það er ég þakklát, en líka fyrir tækifærið til að sækja mér menntun frá barnaskóla og alla leið í háskóla. Það hefur verið lykill minn að betra lífi. Það hefur jafnframt kennt mér að með samkennd og samstöðu tekst okkur að byggja upp sterkara samfélag.“

Aida var ein af rúmlega 50 þúsund flóttamönnum sem komu frá Bosníu til Svíþjóðar á tíunda áratugnum þrátt fyrir að á þeim tíma ríkti mikið atvinnuleysi í Svíþjóð og mikið var talað um kreppu í sænsku efnahagslífi. Skilboð hennar í ræðunni á þingi ETUC voru fyrst og fremst að ef Svíþjóð gat framkvæmt slíka hluti á tímum sem áttu að vera efnahagslega þeir verstu í Svíþjóð á seinni tímum þá hlyti að vera hægt að endurtaka leikinn um alla Evrópu í dag.

„Sérstaklega ef við gerum þetta í sameiginu,“ sagði Aida að lokum.

Mikið hefur verið rætt um flóttamenn á þingi ETUC og var ályktun um flóttamannavandann í Evrópu einróma samþykkt af fundarmönnum í gær. Þar segir m.a.:

„Síðustu mánuði hefur Evrópa orðið vitni að gríðarlegri aukningu fjölda fólks sem fer yfir landamæri til að leita verndar frá stríði og eyðileggingu í heimalandinu.

Fjöldi hælisleitenda hættir lífi sínu og lífi barna sinna og fjölskyldna í leit að friðsamlegu og lífvænlegu umhverfi. ETUC fordæmir harðlega allar tilraunir til að draga úr mannlegri reisn þeirra, mannréttindum og velferð.“

Í ályktuninni er bent á að múrar og girðingar sem reistir hafa verið víða í Evrópu hafa reynst gagnlausir og eingöngu ýtt undir glæpastarfsemi sem tengist smygli á fólki. Slíku ber að hafna. Þá er lýst harmi yfir þeim mannlífum sem tapast hafa á flótta yfir Miðjarðarhafið. Síðan segir:

„ETUC styður grundvallargildin sem Evrópa byggir á um virðingu fyrir mannlífum og mannlegri reisn og hafnar lýðskrumi og kynþáttahyggju. Þessi gildi verður að sýna í verki. Til að svo megi verða er verða aðildarríkja ESB sameiginlega að samþykkja að taka á móti nægilegum fjölda flóttafólks, í samræmi við þann grundvöll sem samstarfið byggir á.“

Síðan er í ályktuninni bent á að víkja þurfi Dyflinnarreglugerðinni til hliðar og að byggt verði í staðinn á samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Evrópusambandið er hvatt til að sýna framsýni og mannúð í flóttamannamálunum og ákvörðun Ráðs ESB frá 22. september er fagnað. Áhersla er lögð á að allir búi við öruggar aðstæður, fjárhagslegt öryggi, trúarlegt og stjórnmálalegt frelsi og aðgang að gæða heilbrigðisþjónustu og menntun í samfélagi sem hlúir að og ver þessi gildi.  Þá er bent á mikilvægi þess að horfa til landanna þaðan sem flóttamennirnir koma. Skapa verði fólki þar friðsamlegar og lífvænlegar aðstæður. Það er lykillinn að því að uppræta ástæður fólksflutninganna. Í lok ályktunarinnar segir:

„Evrópsk verkalýðshreyfing með sína 60 milljónir félagsmanna er kjölfesta gegn öllum tegundum umburðarleysis og mun halda áfram að þrýsta á um að mannlegum harmleik verði mætt af mannúð. Þar sem flóttafólk geti unnið munu stéttarfélögin gera það að félagsmönnum sínum og koma fram fyrir þeirra hönd, og við munum vinna með öðrum að því að veita þeim mannúðaraðstoð sem ekki eru í starf. ETUC mun starfa með Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga að því að bregðast við hörmungum sem eru á alþjóðavísu um leið og þær varða Evrópu.“





Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?