Fleiri gætu frestað læknisheimsóknum

Þó jákvætt sé að stjórnvöld vilji setja þak á greiðslur sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu skortir fjármagn til að koma í veg fyrir að greiðslur stórs hóps sjúklinga aukist verulega. Þetta kemur fram í umsögn BSRB um frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um sjúkratryggingar.

Í umsögninni er farið yfir niðurstöður Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við Háskóla Íslands. Hann hefur sýnt fram á að tæplega 22% Íslendinga höfðu á sex mánaða tímabili frestað því að leita læknis jafnvel þó það fólk teldi sig þurfa á læknisaðstoð að halda. Um 40% af þeim sem höfðu frestað læknisheimsókn sögðu ástæðuna kostnað við heilbrigðisþjónustuna.

Einn af tíu frestað vegna kostnaðar
Þetta þýðir að nærri einn af hverjum tíu landsmönnum hefur þurft að fresta því að leita til heilbrigðisþjónustunnar vegna kostnaðar á sex mánaða tímabili. Verði frumvarp heilbrigðisráðherra að lögum gætu afleiðingarnar verið þær að það fjölgi í þessum hópi, að mati BSRB.

Samkvæmt frumvarpinu verður sett ríflega 95 þúsund króna þak á greiðslur venjulegra notenda í heilbrigðiskerfinu. Undir það falla þó ekki lyf, sálfræðiþjónusta, tannlækningar og fleira. Þrátt fyrir það er jákvætt að stjórnvöld vilji nú tryggja að sá óheyrilegi kostnaður sem margir hafa þurft að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu heyri nú sögunni til.

Hækka gjöldin á stóran hóp
Í umsögn BSRB er gagnrýnt harðlega að ekki sé áformað að þessi lækkun á kostnaði þeirra sem nota þjónustuna mest verði fjármögnuð með auknum framlögum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þvert á móti er ráðgert að hækka gjöld á þá sem minna nota þjónustuna til að létta byrðunum af þeim sem mest nota hana.

Þetta hefur í för með sér að gjöldin hækka á stóran hóp fólks, sem getur leitt til þess að fleiri þurfi að fresta eða hætta við læknisheimsóknir sökum kostnaðar. Það er ekki ásættanlegt að mati BSRB.

Á að greiða úr sameiginlegum sjóðum
Bandalagið telur að stefna eigi að því að heilbrigðisþjónusta sé að fullu greidd úr sameiginlegum sjóðum og átelur stjórnvöld fyrir að hafa ekki tekið þá pólitísku ákvörðun að heilbrigðisþjónustan skuli vera gjaldfrjáls þrátt fyrir að ítrekað hafi komið fram sá vilji almennings að forgangsraða í þágu heilbrigðismála.

„Bandalagið harmar að ekki sé gert ráð fyrir aukinni fjárveitingu til kerfisins heldur eingöngu millifærslu kostnaðar á milli sjúklinga,“ segir í umsögn BSRB um frumvarpið. Þar er bent á að kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hafi næstum tvöfaldast á þremur áratugum. Nú sé so komið að heimilin standi undir um fimmtungi af öllum útgjöldum til heilbrigðismála með beinum greiðslum fyrir þjónustuna.

Ekki bein tengsl við hópa sem greiða hlutfallslega mest
Samkvæmt rannsókn Rúnars eru útgjöldin til heilbrigðisþjónustunnar hlutfallslega hæst á heimilum eldra fólks, atvinnulausra, fólks utan vinnumarkaðs, grunnskólamenntaðra, lágtekjufólks, langveikra og öryrkja. Ekki eru bein tengsl milli þessara hópa og þeirra sem njóta góðs af breytingum í frumvarpinu, segir í umsögn BSRB.

Hér má lesa umsögn BSRB um frumvarp heilbrigðisráðherra í heild sinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?