Stjórn BSRB hefur borist erindi frá fjórum aðildarfélögum þar sem farið er fram á að haldin verði bindandi allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna bandalagsins um fyrirhugaðar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna.
Félögin fjögur fengu Gísla Tryggvason héraðsdómslögmann til að vinna fyrir sig lögfræðiálit um hvort rétt eða skylt hafi verið að bera málið undir atkvæði félagsmanna. Lögmaðurinn kemst ekki að skýrri niðurstöðu um málið í áliti sínu. Hann telur „nær öruggt“ að heimilt hafi verið að vísa málinu í atkvæðagreiðslu félagsmanna. Þá telur hann „líklegt“ að beinlínis sé skylt að gera það.
Krafa um atkvæðagreiðslu þremur mánuðum eftir samþykkt
Formannaráð bandalagsins, sem samkvæmt lögum BSRB mótar stefnu og megináherslur bandalagsins milli þinga, samþykkti á fundi sínum þann 8. september síðastliðinn að fela formanni BSRB að undirrita samkomulag við ríki og sveitarfélög um samræmingu lífeyrisréttinda. Formleg beiðni um allsherjaratkvæðagreiðslu kom fyrst fram í gær, 5. desember, um þremur mánuðum síðar.
Greidd voru atkvæði um málið á fundi formannaráðsins. Alls greiddu 22 atkvæði með því að undirrita samkomulagið en formenn fjögurra félaga greiddu atkvæði gegn því.
Með undirritun sinni lýsti BSRB yfir stuðningi sínum við fyrirhugaðar breytingar en bandalagið tekur engar ákvarðanir í málinu. Um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins gilda lög og þeim lögum verður einungis breytt af Alþingi.
Afdráttarlaus niðurstaða lögmanna
BSRB ákvað að leita eftir áliti lögmanna bandalagsins á heimildum formanns félagsins til að undirrita samkomulagið við ríki og sveitarfélög, í kjölfar athugasemda frá þeim fjórum félögum sem greiddu atkvæði gegn samkomulaginu. Niðurstaða lögmannanna er afdráttarlaust sú að ekki sé um kjarasamning eða ígildi kjarasamnings að ræða og formanni BSRB því bæði rétt og skylt að framkvæma vilja formannaráðs bandalagsins og undirrita samkomulagið. Í samkomulaginu kom ekki fram að það væri ekki undirritað með fyrirvara um atkvæðagreiðslu.
Þrátt fyrir að BSRB og önnur heildarsamtök opinberra starfsmanna hafi undirritað samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytingar á fyrirkomulagi lífeyrismála opinberra starfsmanna hafa breytingarnar ekki verið gerðar. Eftir að samkomulagið var undirritað kynnti fjármálaráðherra lagafrumvarp sem átti að koma efni samkomulagsins í lög. BSRB gerði alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og taldi það ekki endurspegla samkomulagið. Frumvarpið hefur því ekki farið í gegnum þingið.
Tilgangur með atkvæðagreiðslu óljós
Í augum BSRB snýst málið um hvort ríkisstjórn muni standa við samkomulagið eins og frá því var gengið með því að leggja fram frumvarp í þeim anda. Það eitt og sér varpar mjög skýru ljósi á ákvörðunarvaldið í málinu er hjá ríkinu. Út frá því verður ekki séð hvaða tilgangi atkvæðagreiðsla ætti að þjóna, eftir undirritun samkomulagsins, eða hvaða spurningu ætti að leggja fyrir félagsmenn aðildarfélaga bandalagsins. Ekki frekar en að það myndi hafa tilgang að framkvæma atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarfélaga BSRB um fyrirhugaðar breytingar á öðrum lögum sem sett eru af Alþingi.
BSRB leggur mikla áherslu á að fylgja landslögum og lögum bandalagsins í hvívetna í sínum störfum. Þá stendur bandalagið við þá ákvörðun sína að undirrita samkomulag um breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Stjórn bandalagsins mun fjalla um erindi félaganna fjögurra á næsta stjórnarfundi og ákveða hvert framhald málsins verður.