Umsækjendur um störf hjá ríki og sveitarfélögum sem fá ekki starfið þrátt fyrir að þeir séu hæfustu umsækjendurnir eiga mjög erfitt með að sækja rétt sinn. Þetta kom fram í máli Trausta Fannars Valssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, á starfsdegi réttindanefndar BSRB í dag.
Trausti sagði það skyldu hins opinbera að ráða hæfasta einstaklinginn í auglýst starf. Leggja eigi mat á alla umsækjendur og velja þann hæfasta til starfans. Telji umsækjandi sem ekki fær starfið að hann sé hæfari en sá umsækjandi sem fékk starfið getur verið á brattann að sækja fyrir viðkomandi að sækja rétt sinn.
Þar sem sá umsækjandi sem ráðinn er í starfið bar ekki ábyrgð á ráðningunni mun hann ekki missa vinnuna, þrátt fyrir að hægt sé að sýna fram á að annar umsækjandi hafi verið hæfari, sagði Trausti.
Erfitt að sækja skaðabætur
Þess vegna er eina úrræði þess umsækjanda sem telur sig hæfari en þann umsækjanda sem fékk starfið að krefjast skaðabóta. Þar er einnig á brattann að sækja, segir Trausti.
Til að sækja skaðabætur í málum af þessu tagi þarf að sýna skýrt fram á að málið hafi valdið viðkomandi fjártjóni. Þá þarf ekki bara að sýna fram á að viðkomandi sé hæfari en sá umsækjandi sem fékk starfið heldur þarf að sýna fram á að viðkomandi hefði fengið starfið ef sá sem var ráðinn hefði ekki fengið það. Með öðrum orðum þarf að sýna fram á að sá sem krefst bóta hafi verið næstur inn, sagði Trausti.
„Það getur verið mjög erfitt ef það eru margir umsækjendur um starfið enda ekkert sjálfsagt að viðkomandi hefði verið næstur í röðinni,“ sagði Trausti.