Dómur í máli félagsmanns BSRB

Nýlega féll dómur Hæstaréttar í máli félagsmanns BSRB. Málið varðaði miskabótakröfu félagsmannsins vegna þess hvernig staðið var að uppsögn á ráðningarsamningi við hann.

Umræddur félagsmaður hafði verið sakaður um kynferðislega áreitni á vinnustað í febrúar 2009. Af því tilefni aflaði atvinnurekandi sér álits tveggja lögmanna sem báðir komust að þeirri niðurstöðu að háttsemin teldist ekki kynferðisleg áreitni og ekki væri tilefni til fyrirvaralausrar uppsagnar félagsmannsins. Var honum því veitt áminning og gert var samhliða samkomulag vegna ásakananna. Starfsmaðurinn sem sakaði félagsmanninn um kynferðislega áreitni höfðaði mál fyrir héraðsdómi gegn atvinnurekanda til viðurkenningar þess að umrædd háttsemi teldist kynferðisleg áreitni í skilningi jafnréttislaga.

Niðurstaða héraðsdóms í febrúar 2011, var að háttsemin teldist vera kynferðisleg áreitni. Í kjölfarið hófst mikil fjölmiðlaumfjöllun um málið þar sem umræddur félagsmaður var nafngreindur. Skömmu síðar var honum tilkynnt um uppsögn úr starfi. Ári eftir uppsögnina sýknaði Hæstiréttur atvinnurekandann varðandi kröfu um viðurkenningu þess að umrætt atvik fæli í sér kynferðislega áreitni.

Í niðurstöðu Hæstaréttar, í málinu sem hér er um ræðir, um miskabótakröfu vegna framkvæmdar á uppsögn ráðningarsamnings félagsmanns BSRB, var litið til þess að hann hefði ekki brotið gegn samkomulagi sem gert var samhliða veittri áminningu vegna ásakana um kynferðislega áreitni né hefði verið leitt í ljós að hann hefði á nokkurn hátt brotið gegn starfsmanninum. Félagsmaðurinn hefði mátt treysta því að áminningin og umrætt samkomulag fæli í sér niðurstöðu í málinu svo lengi sem hann efndi skyldur sínar samkvæmt því.

Niðurstaða Hæstaréttar var því að ástæða uppsagnar, þ.e. óvægin umræða í fjölmiðlum og samfélaginu, gæti á engan hátt talist lögmætur grundvöllur hennar. Uppsögnin hafi verið í andstöðu við samkomulagið og brot á gagnkvæmri trúnaðar- og tillitsskyldu atvinnurekanda gagnvart honum. Voru honum því dæmdar 500.000 kr. í miskabætur.

Dóminn er að finna hér


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?