Á dögunum hlaut Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins styrk úr Vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur, VOR, til að framkvæma rannsókn á stöðu foreldra á Íslandi með tilliti til möguleika þeirra til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf út frá skipulagi vinnu og skólastarfs. Maya Staub, sérfræðingur hjá Vörðu – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins fjallar um rannsóknina í nýjasta tímariti Sameykis.
Í greininni kemur meðal annars fram að fjölskylduvæn stefnumótun stjórnvalda hefur áhrif á hvernig pör deila ábyrgð á heimili og barnauppeldi. Þeim kynjaða veruleika sem hér ríkir, og gerir að verkum að fjölskylduábyrgð kvenna er ríkari en karla, er meðal annars hægt að mæta með skipulagi á innviðum samfélagsins, svo sem með samræmingu réttinda launafólks til orlofs og veikinda barna og skólastarfs í landinu. Markmiðið með rannsókninni er að varpa heildstæðu ljósi á stöðu foreldra, viðhorf þeirra til breytinga og að kortleggja það misræmi sem foreldrar standa frammi fyrir. Slík greining getur orðið grundvöllur þess að hægt sé að taka stefnumótandi ákvarðanir um skipulag skólastarfs og réttindi launafólks sem hvað best muni tryggja jafnrétti kynjanna.