Byggjum upp fjölskylduvænt samfélag

Það er auðvelt að venjast því í sumarfríinu að geta eytt gæðastundum með fjölskyldum og vinum frekar en vinnufélögum. BSRB telur mikilvægt að fjölga þessum gæðastundum allan ársins hring með styttingu vinnuvikunnar. Markmiðið er að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna.

Þó það sé gott að vera í sumarfríi tekur hversdagsleikinn alltaf við á endanum og flestir hverfa aftur til vinnu eða fara í skóla. Þeir sem hafa prófað að búa á einhverjum af hinum Norðurlöndunum vita að þar er gjarnan auðveldara að samræma vinnuna og fjölskyldulífið. Vinnudagurinn er styttri og sveigjanleikinn oft meiri. Þá er réttur foreldra í fæðingarorlofi almennt mun betri.

Byggt á jafnri stöðu kynjanna
Í stefnu BSRB, sem mörkuð var á 44. þingi bandalagsins síðastliðið haust, er lögð mikil áhersla á fjölskylduvænt samfélag. Með því er átt við samfélag sem gerir fólki kleyft að samræma fjölskyldulífið og atvinnu með betri hætti en nú þekkist.

Fjölskylduvænt samfélag verður að byggjast á jafnri stöðu foreldra. Eyða verður launamuni kynjanna og jafna stöðu foreldra við uppeldi barna.

Vinna þarf í nokkrum afmörkuðum þáttum til að þetta geti orðið. Bættur réttur foreldra í fæðingarorlofi er eitt af því, enda stuðlar það að auknu jafnrétti á vinnumarkaði þegar bæði kyn sjá sér fært að taka fæðingarorlof í jafn langan tíma.

Styttum vinnuvikuna
Þá er BSRB einnig með það í sinni stefnu að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36. Tilraunaverkefni bandalagsins með Reykjavíkurborg hefur þegar gefið góða raun og í haust heldur áfram vinna við undirbúnings tilraunaverkefnis með ríkinu.

Einnig er mikilvægt að skoða samspil atvinnulífs, skóla og heimilis. Þar ætti markmiðið að vera að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk. Það mætti til dæmis gera með sérstökum frídögum til að koma til móts við foreldra vegna vetrarfría, starfsdaga og lokunar skóla. Þessu tengt þarf að auka rétt fólks til að sinna veikum börnum, maka, foreldrum eða öðrum nákomnum.

Að lokum leggur BSRB áherslu á möguleika á sveigjanlegum starfslokum. Þannig verður fólk að eiga aukna möguleika á að minnka starfshlutfall og hefja töku á lífeyri að hluta hvort sem það kýs að gera það fyrr eða síðar á ævinni en nú er gert ráð fyrir.

Kynntu þér stefnu BSRB, þar sem fjallað er um fjölskylduvænt samfélag og fleira.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?