BSRB leggst gegn því að skattar verði lækkaðir á hátekjufólk, eins og boðað er í tillögu að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú liggur fyrir Alþingi. Þá er bent á aðra mikilvæga þætti sem gera þarf ráð fyrir í áætluninni í umsögn bandalagsins.
Ítrekað hefur verið bent á það á undanförnum árum að ójöfnuður hafi aukist hér á landi, meðal annars vegna aukinna fjármagnstekna og hækkandi eignaverðs. Þá hefur skattbyrði tekjulægstu hópanna aukist langmest samanborið við aðra hópa, segir meðal annars í umsögn BSRB um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Af þessum ástæðum leggst bandalagið gegn áformum um eins prósents flata lækkun á tekjuskattsprósentunni, eins og gert er ráð fyrir í tillögu að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ef lækka á tekjuskatt þarf að útfæra þá lækkun með þeim hætti sem helst gagnast þeim sem lægst hafa launin og barnafjölskyldum. Ekki með því að lækka skatta á hátekjufólk.
Aukinn kostnaður við fæðingarorlof
Í tillögu að fjármálaáætlun er fjallað um aukið framlag til Fæðingarorlofssjóðs til að standa undir hækkun á hámarksgreiðslum í fæðingarorlofi í 600 þúsund krónur á mánuði. BSRB leggur áherslu á að gengi verði lengra og farið að tillögum starfshóps félagsmálaráðherra sem skilaði niðurstöðu snemma árs 2016.
Þar var lagt til að þak á greiðslur hækki í 600 þúsund, en uppreiknað eru það um 645 þúsund krónur í dag. BSRB telur rétt að miða við uppreiknaða upphæð. Þá lagði starfshópurinn til lengingu orlofsins í 12 mánuði og að greiðslur upp að 300 þúsund krónum skertust ekki. Ekki er gert ráð fyrir slíkum breytingum í fjármálaáætluninni.
Eyða þarf umönnunarbilinu
Þá telur BSRB ekki síður brýnt að ríki og sveitarfélög taki höndum saman um að eyða umönnunarbilinu, bilinu frá fæðingarorlofi þar til börn komast í öruggt dagvistunarúrræði. Ljóst er að verulegur kostnaður mun fylgja slíkri breytingu sem ekki ert gert ráð fyrir í áætluninni.
Hægt er að kynna sér ýmis önnur álitamál sem fjallað er um í umsögn BSRB um tillögu að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.