Bjarg íbúðafélag afhenti í gær 500. íbúð félagsins rétt um tveimur árum eftir að fyrstu íbúar félagsins fengu íbúðir sínar afhentar. Íbúðin sem afhent var í vær var að Gæfutjörn 22 í Úlfarsárdal.
Það var ung móðir, Hjördís Björk Þrastardóttir, sem tók við 500. íbúðinni, sem er þriggja herbergja íbúð á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi efst í dalnum með fallegu útsýni til austurs og suðurs. Hjördís Björk var himinlifandi yfir nýju íbúðinni og þótti útsýnið fagurt.
Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags sagði við þetta tilefni að nú séu tvö ár frá því félagið hafi afhent sína fyrstu íbúð og því tilefni til að halda upp á þessi tímamót með Hjördísi Björk og gestum. Bjarg íbúðafélag býður leigjendum sínum öryggi á leigumarkaði á hægstæðum leigukjörum. Framundan er áframhaldandi uppbygging og þessi misserin er íbúðafélagið að afhenda um 23 til 30 íbúðir í mánuði.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB lýsti hlýhug sínum yfir þessum gæfudegi hjá Hjördísi Björk að fá 500. leiguíbúðina afhenta hjá Bjargi og að enn fleiri íbúðir séu að verða tilbúnar. Hún sagði að ungt fólk ætti erfitt með að komast í öruggt leiguhúsnæði hér á landi.
„Hér hefur ekki verið neinn alvöru leigumarkaður síðari ár á Íslandi fyrr en nú með komu Bjargs íbúðafélags. Við í verkalýðshreyfingunni vildum breyta þessu, búa til heilbrigðan leigumarkað, og því settumst við niður og spurðum okkur hvernig verkalýðshreyfingin gæti breytt þessari stöðu á leigumarkaðnum. Hvernig við gætum veitt fólki öruggt húsnæði þannig að fólk ætti ekki í vændum að húsnæði yrði selt ofan af því, og einnig að húsleigan væri ávallt á hagkvæmu verði. Það sem er svo dásamlegt við að afhenda Hjördísi Björk lyklana hér í dag er að við sjáum þennan draum rætast; sem var í fyrstu hugmynd sem varð að húsi og nú að heimili.“ sagði Sonja Ýr.
Biðlistar minnka um helming
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Hjördísi Björk blómvönd af þessu tilefni og óskaði henni til hamingju með íbúðina. Borgarstóri sagði þegar Bjarg fór af stað í þessa vegferð hafi borgaryfirvöld bundið miklar vonir við uppbygginguna. „Bjarg íbúðafélag hefur farið fram úr okkar björtustu vonum, því öryggi á leigumarkaðnum hafi skort. Margir bíði eftir að komast í öruggt húsnæði í borginni og því er ég stoltur yfir því að fjögur hundruð íbúðir af þessum fimm hundruð sem afhentar hafa verið eru í Reykjavík, og þetta framboð hafi minnkað biðlista eftir húsnæði um helming.“