Ársfundur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fór fram í dag þar sem m.a. koma fram að samanlagðar eignir allra deilda LSR eru 535,5 milljarðar kr. og hafa hækkað um 50,5 milljarða kr. frá árinu á undan. Árni Stefán Jónsson, varaformaður formaður BSRB og stjórnarformaður LSR flutti ávarp á fundinum þar sem hann fjallaði m.a. um góða ávöxtun eigna sjóðsins á árinu en jafnframt um vandann sem tryggingarfræðileg staða LSR stendur frammi fyrir.
„Árið 2014 var á ýmsan hátt hagfellt fyrir LSR. Vel tókst til við ávöxtun eigna sjóðsins og tekjur af fjárfestingum voru umtalsverðar líkt og undanfarin ár. Eignir sjóðsins til greiðslu lífeyris héldu því áfram að vaxa hröðum skrefum. Tryggingafræðileg staða A-deildar batnaði lítið eitt þó svo enn vanti talsvert á að jafnvægi náist milli eigna og lífeyrisskuldbindinga. Það er áhyggjuefni og sömuleiðis staða og framtíðarhorfur B-deildar,“ sagði Árni Stefán.
„Ávöxtun sjóðsins á liðnu ári var mjög góð. Nafnávöxtun LSR var 10,1% sem svarar til 8,9% hreinnar raunávöxtunar. Tekjur af fjárfestingum á árinu voru 49,5 milljarðar kr. og ef horft er til síðustu þriggja ára voru tekjur af fjárfestingum á því tímabili samtals 150,1 milljarður kr. Ávöxtun þessara ára hefur verið vel ásættanleg, hvort heldur sem hún er borin saman við ávöxtun annarra lífeyrissjóða eða skoðuð í sögulegu samhengi.“
Hann kom einnig inn á vandann sem lífeyrissjóðirnir standa frammi fyrir vegna gjaldeyrishaftanna sem hafa hamlandi áhrif á fjárfestingarumhverfi, eignasamsetningu og áhættustýringu.
„Sjóðurinn hefur selt innlendar eignir til að eiga fyrir lífeyrisgreiðslum en haldið í erlendu eignirnar,“ sagði Árni Stefán og bætti við:
„Gjaldeyrishöftin sem sett voru á haustmánuðum 2008 hafa nú verið við lýði á sjöunda ár. Þau hafa haft áhrif á fjárfestingarumhverfi, eignasamsetningu og áhættustýringu lífeyrissjóða almennt. Þau leiða til einsleitara eignasafns þar sem áhættudreifing verður ófullnægjandi. Þá kunna gjaldeyrishöftin að leiða til óeðlilegrar eftirspurnar eftir innlendum fjárfestingarkostum. Við slíkar aðstæður skapast hætta á skekktu verðlagi á öllum innlendum eignamörkuðum, hvort sem um er að ræða hlutabréf, skuldabréf eða fasteignir. Þetta er áhætta sem stjórnendur lífeyrissjóða verða að vera meðvitaðir um.“
Árni Stefán vék síðan aftur að tryggingarfræðilegri stöðu LSR en benti jafnframt á að sparnaður ríkisins af LSR í gegnum almannatryggingakerfið væri gríðarlegur og þær staðreyndir þyrfti að taka með í reikninginn þegar fjallað væri um stöðu LSR.
„Þegar áhrif á ríkissjóð eru skoðuð er nauðsynlegt að setja hlutina í samhengi. Á bak við reiknaða stærð yfir áfallnar skuldbindingar eru réttindi tugþúsunda sjóðfélaga. Ef ekki væri fyrir þessi réttindi þá þyrfti ríkið að greiða umtalsverðar viðbótarfjárhæðir úr almannatryggingum. Stjórn LSR lét tryggingastærðfræðing reikna út þetta samspil. Niðurstaðan var að reikna má með að sparnaður í almannatryggingarkerfinu vegna réttinda sjóðfélaga hjá B-deild LSR nemi 123 milljörðum kr. Jafnframt var niðurstaða þessara útreikninga að ríkið muni fá 204 milljarða kr. í skatttekjur af lífeyrisgreiðslunum í framtíðinni. Nauðsynlegt er að líta á reiknaðar skuldbindingar í þessu samhengi,“ sagði Árni Stefán og bætti við að takast á við þennan vanda væri eitt af mörgum krefjandi verkefnum stjórnar á komandi árum.
„Kröfur til starfshátta lífeyrissjóða og stjórnenda hafa aukist og starfsumhverfið verður sífellt flóknara. Það er því mikil ábyrgð sem hvílir á þeim sem gefið hafa kost á sér til setu í stjórn sjóðsins. Þeir þurfa að hafa góða þekkingu á því starfsumhverfi sem sjóðurinn starfar í og þeim lögum og reglum sem um hann gilda. Stjórn sjóðsins mun áfram vinna að því að treysta starfsemina til hagsbóta fyrir sjóðfélaga og ábyrgðaraðila sjóðsins.“