Atvinnurekenda að sanna jöfn laun

Konur hafa lengi krafist launajafnréttis, til dæmis á Kvennafrídaginn 24. október 2018.

Launamunur kynjanna hefur verið vandamál á Íslandi, sem og í öllum öðrum löndum, í áratugi. Fyrsta alþjóðasamþykktin um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf er samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100 frá 1951. Fyrstu lög um launajafnrétti kynjanna voru samþykkt á Íslandi árið 1961. Áður en þau komu til voru launataxtar kvenna lægri en karla, og þótti það hið eðlilegasta mál. Íslensku lögin tóku til starfa í almennri verkamannavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofuvinnu og skyldu laun kvenna hækka í áföngum þar til þau yrðu jöfn launum karla. Þannig átti að nást fullnaðarsigur í jafnréttisbaráttunni á sex árum.

Frumvarpshöfundum varð ekki að ósk sinni, og var launamunur kynjanna tæp 15 prósent árið 2017 en tæp 14 prósent ef aðeins þau sem eru í fullu starfi eru skoðuð. Þetta er staðan þrátt fyrir að í gildi hafi verið lög um launajafnrétti kynjanna frá 1961.

Núgildandi jafnréttislög eru frá 2008 og er kveðið á um það í 19. grein laganna að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og að þau skuli njóta sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Reglan felur það í sér að laun skuli ákveðin með sama hætti fyrir konur og karla og þau viðmið sem eru valin (svo sem hæfni, menntun, ábyrgð og mannaforráð) skuli ekki fela í sér kynjamismunun.

Jafnlaunavottun tók svo gildi 1. janúar 2018 og verður innleidd í áföngum. Jafnlaunavottun felur það í sér að fyrirtæki og stofnanir þar sem meira en 25 manns starfa skulu innleiða jafnlaunastaðal og öðlast vottun frá þar til bærum aðila. Meginbreytingin með vottuninni er þannig að atvinnurekandi þarf að sanna að ekki sé verið að mismuna í launum.

Enn er ekki komin mikil reynsla á jafnlaunavottunina, en vonandi mun hún hafa jákvæð áhrif á launamun kynjanna. Þó hafa verið nefndar áhyggjur af því að hún taki ekki nægilega tillit til þess hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn á Íslandi er, þar sem skylda til vottunar tekur aðeins til hvers og eins fyrirtækis eða stofnunar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?