Áramótapistill formanns BSRB 2024

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

 

Árið sem nú líður undir lok var um margt viðburðaríkt og má þar nefna kjarasamninga, kosningar og þing BSRB.

 

Kjarasamningar

Í vor undirrituðu fyrstu aðildarfélög BSRB kjarasamninga við viðsemjendur sína til fjögurra ára. Í kjölfarið var gengið frá nærri öllum samningum aðildarfélaga bandalagsins en viðræðurnar hófust í byrjun árs. Venjan er sú að almenni vinnumarkaðurinn semji fyrst og að eftir það sé samið á opinberum vinnumarkaði. Í þetta sinn hófust viðræður allra stéttarfélaganna hinsvegar um svipað leyti og var mjög náin og góð samvinna milli þeirra. En þessi kjarasamningslota var ekki bara söguleg að þessu leyti, heldur einnig vegna aðgerðapakka stjórnvalda sem var lagður fram í tengslum við samningana.

Lagt var upp með markmið um hóflegar launahækkanir til að stemma stigu við verðbólgu og vöxtum að því tilskyldu að stjórnvöld myndu styðja við kjarasamninga með fjölbreyttum aðgerðum til að bæta lífskjör og kaupmátt, einkum þeirra hópa sem almennt eiga erfiðast með að ná endum saman eins og barnafjölskyldur og leigjendur.

Samstaðan hjá samtökum launafólks var styrkur okkar í þessum viðræðum og sameiginleg undirbúningsvinna okkar í samstarfi við stjórnvöld tryggði það að við náðum fram nánast öllum okkar kröfum.

Hluti aðgerða stjórnvalda er enn í vinnslu eða á að koma til framkvæmda á næstu árum. Dæmi þar um er aukið framboð íbúðarhúsnæðis og hagkvæmra íbúða í almenna íbúðakerfinu, endurmat á virði kvennastarfa með gerð virðismatskerfis, brúun bilsins milli fæðingarorlofs og leikskóla, hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, hækkun barnabóta og aðhald á hækkunum á opinberum gjaldskrám.

 

Helstu áherslur BSRB og kosningar

BSRB hélt sitt 47. þing í haust þar sem lagður var grunnur að störfum bandalagsins næstu þrjú árin. Þar fundum við sterkt að heilbrigðismálin brenna á okkar fólki sem hefur áhyggjur af stöðu almannaþjónustunnar og þar með velferðarkerfisins m.a. vegna áratugalangra aðhaldskrafna og niðurskurðar. Þetta hefur leitt til gríðarlegs álags á starfsfólk og endurspeglast í hárri veikindatíðni og manneklu. Rætt var um vilja einkaaðila til að græða á því að veita fólki nauðsynlega þjónustu svo sem á sviði heilbrigðis- og öldrunarþjónustu og menntunar. Auk þess brunnu efnahagsmálin á okkar fólki, húsnæðismálin og jafnréttismálin. Málefni fólks með erlendan bakgrunn, fatlaðs fólks, hinsegin fólks sem og inngilding innflytjenda. Þessi mál verða því okkar megináherslumál á komandi ári. Markmiðið er að öll nái endum saman, tryggt verði jafnt aðgengi að velferðarkerfinu óháð efnahag eða búsetu og bætt verði starfsumhverfi og kjör í samræmi við verðmæti starfa okkar fólks sem starfar innan velferðarkerfisins.

Í haust var svo boðað til Alþingiskosninga með skömmum fyrirvara og einkenndist umræðan að hluta til af þessum helstu áherslumálum BSRB. Bandalagið stóð fyrir kosningafundi með formönnum flokkanna sem buðu fram til Alþingis ásamt Alþýðusambandi Íslands þar sem rædd voru okkar helstu áherslumál; efnahagsmálin, samkeppnismál, orkumál, velferðarkerfið, jafnréttismál og staða þeirra hópa sem erfiðast eiga með að ná endum saman.

 

Kvennaár 2025

BSRB stóð ásamt tæplega fjörutíu öðrum samtökum kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks fyrir tveimur viðburðum á haustdögum. Á þeim fyrri afhentum við stjórnmálaflokkunum kröfur okkar um lagabreytingar og aðgerðir sem grípa þarf til á Kvennaárinu 2025, nánar til tekið fyrir 24. október 2025 þegar 50 ár eru liðin frá því að konur lögðu fyrst niður launuð sem ólaunuð störf í heilan dag. Seinni viðburðurinn var svo kosningafundur þar sem kröfurnar um launajafnrétti, brúun bilsins og útrýmingu kynbundins ofbeldis voru til umræðu.

Við sólstöður tók ný ríkisstjórn við. Birtan, gleðin og samstaðan sem einkennir hana gefur von sem er dýrmæt fyrir samfélag sem hefur undanfarin ár búið við mótvind í formi samkomutakmarkana vegna kórónafaraldursins og eldgosa. Þetta leiddi til efnahagsþrenginga með tilheyrandi áhrifum á kaupmátt og vaxandi spennu milli hópa en of víða um heiminn gætir aukinnar sundrungar, andúðar eða stríðsátaka. Um leið og við þökkum fráfarandi ríkisstjórn fyrir sín góðu störf, samtalið og samvinnuna óskum við nýrri ríkisstjórn velgengni og gæfu í verkefnum sínum fyrir land og þjóð. Við hlökkum til samstarfsins og erum ánægð að sjá fjöldan allan af helstu áherslumálum okkar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Algengt er að á þessum árstíma segi fólk frá jólabókunum sem það hefur lesið en ég vil freistast til að leggja til frábæran leslista fyrir nýja ríkisstjórn:

  • The Value of Everything, The Big Con og Mission Economy eftir Mariönu Mazzucato,
  • Ósýnilegar konur eftir Caroline Criado Perez (í þýðingu Sæunnar Gísladóttur) og
  • Who Cooked Adam Smith´s Dinner eftir Katrine Marçal.

Áramót marka tímamót í huga okkar flestra og okkur líður eins og að á nýársdag renni upp nýr tími. Ég óska ykkur farsældar á nýju ári og vona að það muni einkennast af stöðugleika, samstöðu, samveru og gleði.

 

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?