Ályktun Landssambands lögreglumanna

Landsamband lögreglumanna sendi í gær frá sér ályktun vegna bréfs sem sambandinu barst frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu nýverið. Landsamband lögreglumanna fordæmdi bréfið í ályktun sinni í gær.

 

Ályktun stjórnarfundar Landssambands lögreglumanna 19. október 2015.

Stjórn Landssambands lögreglumanna (LL) lýsir furðu sinni á og fordæmir þau vinnubrögð fjármálaráðherra sem felast í bréfi Fjármála- og efnahagsráðuneytisins til stjórnar og formanns LL dags. 8. október 2015.

LL hefur þegar svarað bréfi ráðuneytisins með bréfi þann 8. október s.l.

LL ítrekar það að þær aðgerðir sem ráðuneytið ýjar að í bréfi sínu og líkir saman við ólögmætar verkfallsaðgerðir félagsmanna LL eru á engan hátt að undirlagi eða skipulagðar af Landssambandi lögreglumanna.

LL hefur margítrekað bent stjórnvöldum á bágt ástand löggæslumála, undirmönnun, fjárskort o.fl. og jafnframt bent á að lögreglumenn eru orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi, sviknum loforðum og fagurgala stjórnvalda í garð stéttarinnar.

Þá hefur LL margítrekað bent stjórnvöldum á þá einföldu staðreynd að vegna m.a. undirmönnunar og álags hefur margra ára þreyta safnast upp meðal lögreglumanna sem bætist ofan á þá reiði og gremju sem ríkir meðal stéttarinnar.

Nýlegar skýrslur m.a. Vinnueftirlitsins sem og greiningardeildar Ríkislögreglustjórans sýna svo ekki verður um villst að vinnuslys – vegna undirmönnunar – eru afar tíð meðal lögreglumanna og að lögreglustjórar landsins telja sig ekki geta sinnt lögbundnum hlutverkum sínum vegna fjárskorts og undirmönnunar.

Tími er til kominn að fagurgala stjórnvalda og stjórnmálamanna linni í garð stéttarinnar og þess fari að sjást merki í efndum þeirra að löggæsla á Íslandi er ein af grunnstoðum samfélagsins og sú staðreynd endurspeglist í fjölda lögreglumanna, fjárframlögum til löggæslu og launakjörum lögreglumanna.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?