Aðgerða þörf til að sporna gegn auknum ójöfnuði

Lausnin á langvinnum skaða af COVID-kreppunni má finna í norræna velferðarlíkaninu.

COVID-faraldurinn er líklegur til að hraða á þeirri þróun til aukins ójöfnuðar sem greina hefur mátt á Íslandi á undanförnum árum. Framhaldið ræðst að miklu leyti af aðgerðum stjórnvalda og baráttunni gegn langtímaatvinnuleysi. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um efnahagsleg áhrif COVID-faraldursins.

Í þessari fimmtu skýrslu hópsins er sjónum beint að ójöfnuði á Íslandi með tilliti til áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Fram kemur að sá stóri hópur fólks sem missti vinnu sína vegna COVID-faraldursins hafi orðið fyrir mikilli lífskjaraskerðingu. Í þeim hópi er að finna mikinn fjölda einstaklinga sem voru í lægri tekjubilum fyrir og í veikri stöðu til að takast á við tekjufall.

Á sama tíma hafi kaupmáttur aukist hjá þeim sem ekki hafa orðið fyrir teljandi skakkaföllum af völdum veirunnar. Eigendur hlutabréfa hafi hagnast vel. Húsnæðiseigendur hafi notið góðs af lágum vöxtum, minnkaðri greiðslubyrði og mikilli hækkun fasteignaverðs. Þetta auki ójöfnuð í eignaskiptingu og valdi misræmi í afkomu ólíkra samfélagshópa.

Þá er fjallað um sögu og birtingarmyndir ójöfnuðar á Íslandi en almennt telja Íslendingar ójöfnuð meiri en æskilegt er og vilja draga úr honum. Vaxandi ójöfnuður gengur því gegn vilja þjóðarinnar eins og hann birtist í skoðanakönnunum.

Í skýrslunni er bent á að lausnina við langvinnum skaða af COVID-kreppunni sé að finna í norræna velferðarlíkaninu. Með sterkri afkomutryggingu og öflugri atvinnuuppbyggingu megi koma í veg fyrir afkomuvanda til frambúðar. Það kalli á markvissar aðgerðir.

Hér má finna fimmtu skýrslu sérfræðingahópsins um efnahagsleg áhrif COVID-faraldursins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?