Þó Íslendingar séu vanir því að fá hreint og gott neysluvatn beint úr krananum er gott að nota daginn í dag, alþjóðlegan dag vatnsins, til að hugleiða aðeins stöðuna í vatnsmálum í heiminum. Mikilvægt er að tryggja óhindrað aðgengi almennings um allan heim að neysluvatni enda eru það sjálfsögð mannréttindi sem allir eiga að búa við.
BSRB hefur lengi barist fyrir því að aðgangur að drykkjarvatni teljist mannréttindi og að eignarhald á vatni skuli vera samfélagslegt. Þetta telur bandalagið að eigi að binda í stjórnarskrá.
Það er mikið áhyggjuefni að vatnið sé í síauknum mæli orðið eins og hver önnur verslunarvara í heiminum. Aðgangur að góðu drykkjarvatni eru gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra neysluvöru.
Í því ljósi er síaukin einkavæðing vatnsveita víða um heim sérstakt áhyggjuefni. Mikilvægt er að sporna við slíkri þróun. Það er skoðun BSRB að vatnsveitur eigi að reka á félagslegum grunni. Í rekstri þeirra á að taka mið af almannahagsmunum og tryggja rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði.
Þrýst á Evrópusambandið
EPSU – Evrópsk heildarsamtök opinberra starfsmanna, hafa einnig barist fyrir því að önnur evrópsk ríki bindi samskonar ákvæði í stjórnarskrár sínar, eins og Slóvenía hefur þegar gert. EPSU styður kröfu sem tvær milljónir borgara í ríkjum Evrópusambandsins hafa lagt fram þar sem þess er krafist að Evrópusambandið staðfesti að aðgangur að vatni teljist til grundvallarmannréttinda, eins og Sameinuðu þjóðirnar lýstu yfir árið 2010.