1-1-2 dagurinn í dag

112 og samstarfsaðilar vegna 112-dagsins leggja mikla áherslu á að fólk hugi betur að öryggi í ferðalögum að vetri til. Vetrarmánuðirnir eru gríðarlega annasamir hjá 112 og viðbragðsaðilum vegna ferðalaga og útivistar við misjafnar og stundum mjög varasamar aðstæður. Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri 112, segir að með því að vanda betur undirbúning ferðalaga megi draga verulega úr hættu á slysum og erfiðleikum og auðvelda leit og björgun þegar á þarf að halda.

„Við leggjum mikla áherslu á að ferðalangar geri ferðaáætlun, til dæmis á www.safetravel.is, og láti vita af ferðum sínum. Einnig er brýnt að fólk geti látið vita um nákvæma staðsetningu þegar leitað er eftir aðstoð. Það getur flýtt verulega fyrir því að aðstoð berist. Við hvetjum fólk líka eindregið til að læra að bregðast við slysum og veikindum með því að sækja námskeið í skyndihjálp eða fyrstu hjálp,“ segir Tómas.

112-blaðið fylgir Fréttablaðinu 11. febrúar. Þar er að finna ítarlegar leiðbeiningar og góð ráð um hvernig auka má öryggi í ferðum að vetri til.

Vegagerðin grípur um þessar mundir til víðtækra ráðstafana til að stemma stigu við að fólk leggi í tvísýn ferðalög þrátt fyrir ófærð og ítrekaðar viðvaranir. Sett verða upp lokunarhlið við fjölda leiða á þjóðvegi 1 og víðar. Aðgerðir Vegagerðarinnar verða kynntar sérstaklega á 112-daginn.

112-dagurinn er haldinn um allt land 11. febrúar. Hann er einnig haldinn víða um Evrópu en 112 er samræmt neyðarnúmer í Evrópu. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Að þessu sinni er áhersla lögð á að auka öryggi í ferðum fólks að vetrarlagi, hvort sem er á vegum eða utan alfaraleiða.

Við sérstaka dagskrá í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð 11. febrúar kl. 16 verða veitt verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2013 og neyðarverði ársins verður veitt viðurkenning. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flytur ávarp við athöfnina.

112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?