Kynning á kjarasamningum 2020 - Stytting vinnuvikunnar í dagvinnu
Í kjarasamningum var samið um styttingu á vinnutíma dagvinnufólks. Stytting vinnuvikunnar hefur verið helsta baráttumál BSRB síðustu ár og er því afar ánægjulegt að þessi árangur hafi náðst.
Markmið breytinganna er að bæta vinnustaðamenningu og nýtingu vinnutíma, tryggja gagnkvæman sveigjanleika og stuðla að bættum lífskjörum og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
Hér að neðan má sjá kynningarmyndband þar sem farið er yfir helstu atriðin um þennan efnisþátt ásamt hlekk til að hlaða niður glærum sem farið er yfir í myndbandinu. Því er svo fylgt eftir með ítarlegri upplýsingum í textanum þar fyrir neðan.
Vinnuvika dagvinnufólks í dag er 40 stundir. Stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólk verður útfærð á hverri stofnun eða vinnustað fyrir sig. Meirihluti starfsfólks á hverjum stað getur komið sér saman um breytt fyrirkomulag vinnutíma og með hvaða hætti hann styttist. Vinnuvikan getur verið stytt allt niður í 36 stundir á viku, eða um 4 tíma án launaskerðingar.
Ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar
Ákvörðun um hversu mikið eigi að stytta verður tekin með atkvæðagreiðslu á hverjum vinnustað. Áður en atkvæðagreiðslan fer fram mun starfsfólk og stjórnendur fá fræðslu um hvernig megi skipuleggja vinnuna betur og stytta vinnuvikuna.
Forstöðumaður stofnunar eða vinnustaðar skipar sérstakan vinnutímahóp sem leiðir umræðuna um styttingu vinnuvikunnar á vinnustaðnum og annast atkvæðagreiðslu. Í vinnuhópnum eiga sæti fulltrúar starfsmanna sem þeir tilnefna sjálfir og stjórnendur. Nefndin fær fræðslu og leiðbeiningar um hvað þurfi að ræða, skoða og hvernig megi auka skilvirkni og vinna betur á styttri tíma áður en hún hefst handa. Þá boðar nefndin til samtals allra starfsmanna og stjórnenda þar sem ræddir eru möguleikar á styttingu og óskir starfsmanna um hvernig sé best að stytta vinnuvikuna með hliðsjón af þeirri þjónustu sem er veitt hjá vinnustaðnum eða starfseminni. Til dæmis hvort stytt sé daglega, vikulega eða með blönduðum hætti. Einnig hvort hver og einn starfsmaður geti valið fyrir sig eða hvort það þurfi að vera sami vinnutími fyrir alla vegna starfsemi stofnunar.
Eftir þessi samtöl leggur vinnutímanefndin tillögu fyrir starfsfólk og stjórnendur sem greidd verða atkvæði um. Tillögurnar geta verið mismunandi eftir hópum, t.d. ef mikil fjölbreytni er í störfum, mismunandi sveigjanleiki og krafa um viðveru.
Matar- og kaffitímar
Hluti af því að innleiða breytingarnar er að ákveða hvernig fyrirkomulag matar- og kaffitíma verður hjá einstökum vinnustöðum. Kjarasamningar gerðu áður ráð fyrir að matartími væri ekki hluti vinnutímans og að kaffitímar væru tveir, samtals 35 mínútur. Kaffitímar hafa verið hluti vinnutímans. Á flestum vinnustöðum hafa kaffitímarnir verið nýttir í hádegismatinn, þannig að vinnudagurinn hefur verið samtals 8 tímar, með 35 mínútna matarhléi. Starfsfólk hefur þó einnig fengið morgunkaffi og síðdegiskaffi, en þeir kaffitímar hafa verið sveigjanlegir og ekki alltaf tímasettir.
Þetta fyrirkomulag getur breyst við styttingu vinnutímans. Ef starfsfólk kýs að fara í ítrustu styttingu, þannig að vinnuvikan verði 36 tímar, gefur starfsfólk eftir forræði á kaffi- og matartímum og þeir verða sveigjanlegir. Það þýðir ekki að matar- og kaffitímar verði ekki til staðar. Á vinnustöðum þar sem eru mötuneyti og kaffistofur mun starfsfólk áfram hafa rétt til þess að fara í hádegismat og standa upp frá vinnunni sinni. Í þeim tilvikum sem starfsfólk hefur bundna viðveru og kemst ekki frá nema að vera leyst af verður innleitt fyrirkomulag sem gerir ráð fyrir afleysingu á meðan matast er og til að fólk geti fengið sér kaffi eða staðið upp fyrir og eftir hádegi. Kaffitímar á morgnana og síðdegis verða áfram með sama hætti, þ.e. sveigjanlegir og ekki alltaf tímasettir. Hádegismatur og kaffitímar verða þá hluti af vinnutímanum.
Ef starfsfólk vill halda óbreyttu fyrirkomulagi og fá sitt matarhlé í 35 mínútur sem það getur ráðstafað að vild, t.d. með því að fara út úr húsi, styttist vinnuvikan um 65 mínútur, eða 13 mínútur á dag.
Útfærsla styttingarinnar
Starfsfólk og stjórnendur gera með sér samkomulag um skipulag vinnutíma. Stytting vinnuvikunnar getur ýmist verið tekin út á hverjum degi, vikulega eða hálfs mánaðarlega.
Nánari leiðbeiningar um skipan vinnutímahópsins og vinnulag verða sendar til vinnustaða fljótlega eftir að kjarasamningar hafa verið samþykktir og þá hefst samtalið innan vinnustaðanna. Gert er ráð fyrir að niðurstaða samtalsins liggi fyrir eigi síðar en 1. október og vinnuvikan verði stytt eigi síðar en 1. janúar 2021. Það má hefjast handa fyrr ef samkomulag er um það á vinnustaðnum. Ef starfsfólk nær ekki samkomulagi styttist vinnutími sem nemur 13 mínútum á dag eða 65 mínútur á viku 1. janúar 2021.
Dæmi um útfærslu styttingar vinnutíma
Dæmi 1: Hefðbundin neysluhlé eru hluti af vinnutímanum og eru því ekki á forræði starfsmannsins. Skipulagið gerir ráð fyrir að samfella sé í vinnudeginum.
Dagleg stytting: Hver vinnudagur styttur í upphafi eða lok dags og hefðbundin neysluhlé eru hluti af vinnutímanum. Vinnutími gæti þá til dæmis verið frá kl. 8 -15:12.
Vikuleg stytting: Samfelld stytting tekin út á einum vinnudegi í viku og hefðbundin neysluhlé eru hluti af vinnutímanum. Vinnutími gæti þá til dæmis verið frá kl. 8-16 fjóra daga vikunnar en frá kl. 8-12 einn dag í vikunnar.
Hálfs mánaðarleg stytting: Samfelld stytting tekin út sem frídagur hálfsmánaðarlega og hefðbundin neysluhlé eru hluti af vinnudeginum. Vinnutími gæti þá til dæmis verið frá kl 8-16 en frí tíunda hvern vinnudag.
Dæmi 2: Stytting vinnutíma um 13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku. Neysluhlé teljast ekki til vinnutíma þar sem þau eru á forræði starfsmanns til ráðstöfunar að vild.
Dagleg stytting: Hver vinnudagur styttur í upphafi eða lok dags og hefðbundin neysluhlé svo sem 35 mín i matartími er ekki hluti af vinnudeginum. Vinnutími gæti þá til dæmis verið frá kl. 8:00-15:47.
Vikuleg stytting: Samfelld stytting tekin út á einum vinnudegi í viku og hefðbundin neysluhlé svo sem 35 mín í matartími er ekki hluti af vinnudeginum. Vinnutími gæti þá verið frá kl. 8-16 fjóra daga vikunnar en frá 8-14:55 einn dag í viku.
Hálfs mánaðarleg stytting: Samfelld stytting tekin út sem frídagur hálfsmánaðarlega og hefðbundin neysluhlé svo sem 35 mín í matartími er ekki hluti af vinnudeginum. Vinnutími gæti þá verið frá kl. 8-16 níu daga en tíunda daginn frá kl. 8-13:50.
Það eru fjölmargir valmöguleikar fyrir hendi og því hægt að skipuleggja styttingu vinnuviku með öðrum hætti en þessi dæmi sýna. Þannig er hægt að fara blandaða leið með mismikilli styttingu eftur dögum, taka styttingu út í upphafi dags.
Svo er hægt að velja á milli annarra aðferða, t.d. getur starfsfólk ákveðið að stytta matartímann í 20 mínútur, og stytta vinnutímann þá um 15 mínútur á dag. Við það bætist einnig stytting upp á 13 mínútur sem er hluti af styttingu samkvæmt kjarasamningi. Þá er dagleg stytting samtals 28 mínútur en með þessum hætti hefur starfsfólk áfram forræði á matartímanum og hann verður ekki hluti vinnutímans.