Kynning á kjarasamningum 2020 - Jöfnun launa milli markaða og launaþróunartrygging

BSRB og aðildarfélög bandalagsins lögðu áherslu á að tekin verði markviss og tímasett skref í átt að jöfnun launa milli markaða á næstu árum og að áfram verði samið um launaþróunartryggingu til að tryggja opinberum starfsmönnum það launaskrið sem verður á almennum vinnumarkaði.

 

Hér að neðan má sjá kynningarmyndband þar sem farið er yfir helstu atriðin um þennan efnisþátt ásamt hlekk til að hlaða niður glærum sem farið er yfir í myndbandinu. Því er svo fylgt eftir með ítarlegri upplýsingum í textanum þar fyrir neðan.

 

 

Jöfnun launa á milli markaða

Árið 2016 sömdu ríki, sveitarfélög og heildarsamtök launafólks um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Markmið samkomulagsins var að tryggja sjálfbærni lífeyriskerfisins og kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði yrðu jöfnuð eins og kostur er. Jafnframt var samið um að jafna eigi laun einstakra starfshópa milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins til að tryggja að ekki sé kerfislægur launamunur milli markaða. Jöfnunin átti að eiga sér stað á 6-10 árum sem þýðir að henni á að vera lokið árið 2026 í síðasta lagi.

Í þessum kjarasamningsviðræðum var krafa BSRB og aðildarfélaga að tekin verði markviss skref í átt að jöfnuninni til að tryggja að loforð stjórnvalda verði efnt. Niðurstaðan er að á kjarasamningstímabilinu, sem lýkur árið 2023, á að vinna áfram að jöfnun launa með greiningu á launamun milli markaða eftir hópum. Leggja á fram áætlun um jöfnun launa starfsmanna ríkis og sveitarfélaga við almenna vinnumarkaðinn fyrir 1. nóvember 2020.

Áætlunin á að fela í sér áætlun um launahækkanir til þeirra hópa sem búa við launamun milli markaða þannig að búið verði að jafna tvo þriðju hluta þess launamunar í lok árs 2023. Fyrsta greiðsla vegna þeirra hópa sem búið verður að greina á að koma til í síðasta lagi 1. janúar 2021.

Þetta er góð niðurstaða í ljósi þess að ekki er búið að greina launamuninn hjá öllum hópum milli markaða. Helsta áskorunin í þeirri vinnu er að það eiga ekki allir hópar á opinberum vinnumarkaði sér augljósa samanburðarhópa á almennum vinnumarkaði. Með öðrum orðum þá eru margir hópar eða stéttir sem geta eingöngu unnið hjá hinu opinbera með hliðsjón af þekkingu þeirra, menntun og reynslu. Það þarf því að ljúka við þá greiningu og mat á störfum slíkra hópa. Þá er búið að setja tímasetningu á fyrstu greiðslu í átt að jöfnun launa milli markaða og hvaða frekari skref skuli taka á þessu kjarasamningstímabili.

Stefnt að launaþróunartryggingu

Þá var gerð bókun um að stefnt verði að launaþróunartryggingu. Henni er ætlað að tryggja að launaþróun sé svipuð hjá opinberum starfsmönnum og starfsmönnum á almennum vinnumarkaði þannig að opinberir starfsmenn haldi í við almenna launarþróun á kjarasamningstímabilinu. Samkomulagið verður gert í samvinnu við önnur heildarsamtök opinberra starfsmanna, ríki og sveitarfélögin öll. Það hafa ekki allir lokið gerð kjarasamninga en þegar það er komið verður farið í þessa vinnu.

Þá er ljóst að þegar jöfnun launa milli markaða á sér stað þarf að viðhalda henni, þ.e. að tryggja að hóparnir sem hafa verið leiðréttir dragist ekki aftur úr við almenna launaþróun. Launaþróunartrygging er ein leið til að gera það.

Til baka á kynningarsíðu

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?