Aðrar reglur fyrir uppsagnir hjá hinu opinbera

Fróðleikur
Við vissar aðstæður getur verið réttlætanlegt að opinberum starfsmanni sé vikið fyrirvaralaust úr starfi.

Aðrar reglur gilda um uppsagnir opinberra starfsmanna en starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Almennt má segja að ef uppsögnin er ekki liður í hagræðingaraðgerðum þarf fyrst að áminna starfsmanninn og gefa viðkomandi kost á að bæta ráð sitt áður en til uppsagnar kemur.

Reglur um áminningarferli opinberra starfsmanna má finna bæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga. Þar segir að hafi starfsmaður sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skuli vinnuveitandi veita honum skriflega áminningu. Áður en slík ákvörðun er tekin skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.

Ákvörðun um að veita starfsmanni áminningu er stjórnvaldsákvörðun og af þeim sökum þarf að fylgja reglum stjórnsýsluréttar, bæði skrifuðum og óskrifuðum. Þannig þarf að veita starfsmanni andmælarétt og rannsaka málið til hlítar áður en ákvörðun er tekin en einnig þarf að gæta meðalhófs við meðferð málsins. Áminning skal vera skrifleg og þar tilgreint hverjar afleiðingarnar verða bæti starfsmaður ekki ráð sitt, en afleiðingar geta verið þær að starfsmanni sé sagt upp störfum. Það er því skylt að veita áminningu ef uppsögn má rekja til atvika er að varða starfsmanninn, en ef um er að ræða hagræðingu í rekstri þarf ekki að gæta að áminningarferli.

Tafarlaus uppsögn getur verið réttlætanleg

Við vissar aðstæður getur verið réttlætanlegt að starfsmanni sé vikið fyrirvaralaust úr starfi, hafi hann orðið uppvís að grófu broti og áframhaldandi vera hans á vinnustaðnum er til þess fallin að skaða starfsemina, aðra starfsmenn eða viðskiptavini. Einnig getur slíkt verið réttlætanlegt ef starfsmaðurinn hefur verið sviptur með dómi rétti til að gegna starfinu eða hefur gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Þess ber þó að geta að fyrirvaralaus uppsögn er undantekning frá meginreglunni um áminningarferli sem undanfara uppsagnar vegna atvika er varða starfsmann og þess vegna ætti, með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, almennt ekki að fara þá leið nema veigamikil rök séu fyrir því. Sé ákvörðun tekin um fyrirvaralaus uppsögn starfsmanns er að sjálfsögðu einnig um að ræða stjórnvaldsákvörðun og þar af leiðir að fylgja þarf málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?