Hlutastörf lækka tekjur kvenna út ævina

Fróðleikur
Um þriðjungur kvenna á Íslandi vinnur hlutastörf sem lækkar tekjur þeirra og í kjölfarið greiðslur úr lífeyrissjóðum.

Mun hærra hlutfall kvenna en karla á Íslandi vinnur hlutastörf, sem hefur mikil áhrif á tekjur þeirra allt fram á efri ár. Rannsóknir sýna að um þriðjungur kvenna vinnur hlutastörf en á bilinu sex til fjórtán prósent karla, en hlutfallið sveiflast meira milli tímabila hjá körlum.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á ástæðu þess að konur og karlar vinna hlutastörf og þær hafa leitt ýmislegt í ljós. Í norrænni samanburðarrannsókn frá árinu 2014 kemur fram að algengasta ástæðan fyrir því að konur vinna hlutastörf er sú ábyrgð sem þær taka á fjölskyldunni. Um þriðjungur hlutastarfandi kvenna gefur þá ástæðu.

Þegar svör karla eru skoðuð kemur í ljós að enginn þeirra valdi sér hlutastarf vegna fjölskylduaðstæðna. Almennt virðast karlar fremur vinna hlutastörf vegna menntunar, eigin heilsu eða annarra ástæðna. Aðrar rannsóknir sem ná til fólks í hlutastörfum í öðrum Evrópulöndum sýna sömu niðurstöður, um þriðjungur kvenna vinnur hlutastarf vegna fjölskylduábyrgðar en einungis um sex prósent karla.

Þessi munur á atvinnuþátttöku kynjanna getur haft margvíslegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir konur út ævina. Lægri atvinnuþátttaka skilar sér ekki bara í lægri tekjum á vinnumarkaði, heldur einnig í lægri lífeyrisgreiðslum kvenna.

Stytting vinnuviku getur breytt miklu

BSRB hefur lengi talað fyrir því að jafna þurfi stöðu kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilum. Stytting vinnuvikunnar er einnig gríðarstórt jafnréttismál, en rannsóknir sýna að styttri vinnuvika geti stuðlað að því að konur leiti síður í hlutastörf og karlar taki aukna ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfunum.

Það er von BSRB að með styttingu vinnuvikunnar takist að breyta hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna með því að stuðla að jafnari skiptingu ábyrgðar á launuðum sem ólaunuðum störfum. En ekki síst að stytting vinnuvikunnar leiði til þess að störf sem gjarnan eru kölluð kvennastörf verði metin af verðleikum í launasetningu og með betri vinnutíma.

Lestu meira um baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?