Desemberuppbót er greidd þann 1. desember ár hvert eins og um er samið í kjarasamningum. Desemberuppbótin er greidd þrátt fyrir að kjarasamningar séu lausir en misjafnt milli aðildarfélaga BSRB hvernig upphæð uppbótarinnar er reiknuð í því tilviki.
Desemberuppbót er hluti af öllum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB. Hún er föst krónutala, á hana bætist ekki orlof, og samið er um hana fyrir hvert og eitt ár þegar kjarasamningar eru gerðir.
Þar sem kjarasamningar hjá öllum aðildarfélögum BSRB nema Póstmannafélagi Íslands eru lausir núna liggur ekki fyrir hver upphæð desemberuppbótar fyrir árið 2019 verður. Upphæð desemberuppbótar er mismunandi eftir kjarasamningum.
Þrátt fyrir að ekki hafi náðst samningar þýðir það ekki að greiðsla desemberuppbótar frestist þar til samið verður. Eðlilegt er að starfsmenn fái greidda desemberuppbót síðasta árs á þeim tímapunkti sem kjarasamningur greinir og fái svo leiðréttingu ef samið verður um hærri uppbót í komandi kjarasamningum.
Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélögunum munu þau greiða eftir þessari aðferðafræði. Ríkið áformar hins vegar að greiða 92 þúsund króna desemberuppbót líkt og lagt er til í samningstilboðum samninganefndar ríkisins undanfarið.
Einhver aðildarfélög BSRB hafa fengið staðfestingu á því að desemberuppbót verði hækkuð milli ára þrátt fyrir að samningar hafi ekki náðst. Upplýsingar um slíkt má nálgast á vefsíðum aðildarfélaga BSRB.
Um desemberuppbót gilda almennt þær reglur að einstaklingar sem hafa verið í fullu starfi á tímabilinu janúar til október eða nóvember, misjafnt eftir kjarasamningum, fá fulla uppbót. Það sama gildir um einstaklinga sem hafa verið í fæðingarorlofi eða launalaust frá störfum vegna veikinda í allt að sex mánuði. Starfsfólk í hlutastarfi fær greidda uppbót eftir starfshlutfalli og það starfsfólk sem hefur unnið hluta úr ári sömuleiðis.