Bjarg íbúðafélag stendur nú í stórræðum en til stendur að byggja vel á annað þúsund íbúðir á næstu sex árum. Íbúðirnar verða leigðar fólki sem ekki hefur möguleika á félagslegu húsnæði en getur ekki leigt á almennum markaði. Félagið hefur nú þegar fengið vilyrði um lóðir fyrir um 1.150 íbúðir í Reykjavík og Hafnarfirði.
BSRB og ASÍ stofnuðu Bjarg íbúðafélag, sem er sjálfseignarfélag sem rekið er án hagnaðarmarkmiða, á síðasta ári. Félaginu er ætlað að byggja og leigja út íbúðir til tekjulægri hópa með það að markmiði að bjóða upp á öruggt og vandað íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
„Við erum með félagslegt húsnæði og síðan erum við með almenna markaðinn og þarna á milli hefur verið tómarúm þar sem fólk hefur ekki haft getu til þess að kaupa á almennum markaði en er með of miklar tekjur til þess að fara inn í félagskerfið. Bjarg íbúðafélag er hugsað til að brúa þetta bil,“ sagði Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, í samtali við tímaritið Sóknarfæri nýverið.
Félagið hefur því tvíþætt hlutverk. Það þarf bæði að byggja upp húsnæði og vera leigutaki þeirra sem síðan munu búa í húsnæðinu. Björn segir að stefnt sé að því að byrja að taka við umsóknum um íbúðir um næstu áramót.
Litlar og hagkvæmar íbúðir
Áherslan hjá Bjargi verður á að byggja frekar litlar og hagkvæmar íbúðir. Stærðirnar verða heldur minni en venjan er á almenna markaðinum og helgast það af þörf fyrir að draga sem mest úr kostnaði án þess að fórna gæðum.
- Tveggja herbergja íbúðir verða 45 fermetrar
- Þriggja herbergja íbúðir verða 70 fermetrar
- Fjögurra herbergja íbúðir verða 85 fermetrar
- Fimm herbergja íbúðir verða 100 fermetrar
Þá verður unnið að því að hafa sem fæst bílastæði í bílastæðahúsum enda eru þau mjög dýr og falla ekki að þessu verkefni.