Úrræði sem ætlað er til að auðvelda fólki kaup á fyrstu íbúð gagnast helst þeim sem hafa háar tekjur og þeim sem munu komast fljótlega inn á húsnæðismarkaðinn samkvæmt greiningu Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn tekur þar með undir sjónarmið sem sett voru fram í umsögn BSRB um lagafrumvarpið áður en það varð að lögum.
Samkvæmt lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, sem tóku gildi 1. júlí, eru þrjár leiðir í boði til að nota séreignarsparnað sinn í allt að 10 ár til að auðvelda sér að komast út á húsnæðismarkaðinn. Í fyrsta lagi með því að leggja sparnaðinn fyrir til að eiga fyrir útborgun í íbúð. Í öðru lagi að nýta séreignarsparnaðinn til að greiða inn á höfuðstól fasteignaláns. Þriðja leiðin er svo blanda af þessu tvennu á því 10 ára tímabili sem hægt er að nýta þessar leiðir.
Eins og við hjá BSRB bentum á í umsögn um málið er sú leið að safna saman séreignarsparnaðinum til að safna fyrir útborgun ófullnægjandi. Þær fjárhæðir sem einstaklingur eða fólk í sambúð getur safnað eru of lágar til að geta staðið undir 20% útborgun af nokkurri íbúð.
Fjallað var um lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð á fundi Íbúðalánasjóðs í gær. Þar fór Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, yfir það hverjir geti nýtt sér þær leiðir sem þar er boðið upp á.
Hver einstaklingur getur að hámarki safnað 500 þúsund krónum á ári með þessu nýja úrræði, en til þess þarf sá einstaklingur að vera með um 695 þúsund krónur í mánaðarlaun. Úrræðið er til tíu ára og á þeim tíma getur einstaklingur með svo háar tekjur safnað alls 5 milljónum króna.
Þetta er þó ekki staðan hjá þorra launafólks enda meðallaunin í landinu talsvert undir 695 þúsund krónum. Eins og Una rakti á fundinum getur einstaklingur með 200 þúsund krónur í mánaðarlaun aðeins safnað 1,44 milljónum króna á þessu tíu ára tímabili.
- Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, á fundi sjóðsins í gær.
Einstaklingar eða sambúðarfólk sem safnar hæstu mögulega upphæð á ári getur safnað fimm milljónum króna á ári. Það dugir fyrir 20% útborgun í íbúð sem kostar samtals 25 milljónir. Miðað við þróunina á fasteignamarkaðinum er ekki erfitt að spá fyrir um að fáar íbúðir muni fást á því verði eftir 10 ár, þegar milljónirnar fimm verða loksins komnar.
Það er ágætt að fá staðfestingu hagdeildar Íbúðarlánasjóðs á því sem bent var á í umsögn BSRB. Stjórnvöld verða að gera betur í að aðstoða þá sem hafa meðaltekjur eða undir í að koma þaki yfir höfuðið. Þar hefur BSRB lagt áherslu á að einstaklingarnir hafi raunverulegt val um hvort þeir vilji eiga fasteign eða vera á leigumarkaði. Þess vegna ætti stuðningur stjórnvalda við einstaklinga á leigumarkaði og eignarmarkaði að vera sambærilegur, eins og segir í umsögn BSRB .