Kjararáð heldur áfram að vera leiðandi í launamálum opinberra starfsmanna með ákvörðunum um launakjör sjö embættismanna og allra sendiherra sem gerðar voru opinberar fyrir helgi. BSRB hefur margítrekað mótmælt því að ráðið hækki laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar verulega og mun líta til þess fordæmis sem ráðið hefur sett þegar kemur að gerð kjarasamninga.
Athygli vekur að ráðið heldur uppteknum hætti og hækkar launin afturvirkt, í sumum tilvikum um nítján mánuði aftur í tímann. Það er ekki nýlunda í úrskurðum ráðsins en við gerð kjarasamninga hafa viðsemjendur BSRB ekki sýnt nokkurn vilja til að hækka laun aftur í tímann. Augljóst er að með þessu er kjararáð að setja skýrt fordæmi sem litið verður til þegar kemur að gerð kjarasamninga.
Sú ákvörðun kjararáðs að hækka laun vel launaðra ríkisforstjóra og sendiherra um tugi prósenta, afturvirkt, er í hrópandi ósamræmi við samkomulag sem aðilar á vinnumarkaði, þar með talið ríkið, gerði þegar unnið var að endurbótum að vinnumarkaðsmódelinu. Ekki einungis eru hækkanirnar ríflegar í prósentum heldur verður einnig að líta til þess að um verulega háar upphæðir er að ræða í krónum talið.
Kjararáð starfar í umboði Alþingis
Kjararáð starfar ekki í tómarúmi. Það starfar í umboði Alþingis eftir lögum sem þar eru sett. Þingið skipar þrjá af fimm fulltrúum í ráðinu. Hinir tveir eru skipaðir af fjármálaráðherra annars vegar og Hæstarétti hins vegar. BSRB hefur skorað á Alþingi að breyta lögum um kjararáð þannig að ráðið verði ekki leiðandi í launamálum. Við því hefur ekki verið brugðist.
Þá er rétt að ítreka gagnrýni á hversu ógagnsætt kjararáð er í ákvörðunum sínum. Þar er þess vandlega gætt að tiltaka ekki hver laun þeirra sem ákvarðanirnar ná til voru áður en ákvörðunin tók gildi. Það er því oft erfitt eða ómögulegt að sjá hversu miklar hækkanirnar eru í raun. Þessum feluleik þarf að linna og það er Alþingis að sjá til þess að almenningur hafi þær upplýsingar sem þarf. Þessi feluleikur er með öllu óþolandi.
Afturvirk hækkun kallar á háar eingreiðslur
Aðeins í þeim tilvikum þegar til er eldri ákvarðanir kjararáðs til samanburðar er hægt að reikna út hver laun þeirra sem ákvarðað er voru. Í þeim ákvörðunum sem nú voru birtar á það aðeins við um fimm embætti.
- Embætti ríkisendurskoðanda: Fyrir nýjustu ákvörðunina var ríkisendurskoðandi með 1.633 þúsund krónurí laun á mánuði. Samkvæmt nýrri ákvörðun kjararáðs hækka launin í 1.725 þúsund, sem er 23,8% launahækkun. Hækkunin er afturvirk frá 1. júlí 2016 og fær því ríkisendurskoðandi tæplega 4 milljóna króna eingreiðslu.
- Embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins: Fyrir voru laun hans 1.633 þúsund krónur á mánuði en hækka nú í 1.793 þúsund. Hækkunin nemur 9,8%. Forstjórinn á von á um 2,9 milljón króna eingreiðslu enda hækkunin afturvirk frá 1. janúar 2016.
- Embætti forsetaritara: Fyrir voru laun ritara forseta 1.164 þúsund krónur á mánuði en hækka nú í 1.334 þúsund. Hækkunin er alls 14,6%. Hún er afturvirk frá október 2016 og fær ritarinn því ríflega 1,5 milljóna króna eingreiðslu.
- Embætti hagstofustjóra: Fyrir voru laun hagstofustjóra um 1.320 þúsund krónur á mánuði en hækka þau nú í 1.467 þúsund. Hækkunin nemur 11,1%. Hún er afturvirk frá október 2016 sem kallar á um 1,3 milljóna króna eingreiðslu.
- Embætti framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar: Laun framkvæmdastjórans voru 1.105 þúsund krónur fyrir hækkun kjararáðs en eru nú 1.213 þúsund. Hækkunin nemur 9,7%. Þar sem hún er afturvirk frá ársbyrjun 2016 fær framkvæmdastjórinn um 1,9 milljóna króna eingreiðslu.
Athugið að tölurnar hér að ofan eru birtar með fyrirvara. Þær eru niðurstöður útreikninga sem byggja á eldri úrskurðum kjararáðs og nýjustu kjaratöflu sem ráðið birtir á vef sínum. Hafi kjararáð ekki birt úrskurði sem sýna breytingar geta tölurnar verið ónákvæmar.
Athugið að fréttin var uppfærð þann 27.6. og tölur leiðréttar.