Stytta vinnuvikuna til að laða að starfsfólk

Starfsmenn sveitarfélagsins Jönköping í Svíþjóð munu vinna sjö stundir á dag í stað átta áður frá og með komandi hausti.

Sífellt fleiri vinnustaðir í Svíþjóð bjóða starfsmönnum sínum upp á styttri vinnuviku til að laða að sér hæft starfsfólk. Nú hefur sveitarfélagið Jönköping ákveðið að stytta vinnudaginn úr átta klukkustundum í sjö án skerðingar á launum frá og með næsta hausti. Styttingin tekur til um 200 starfsmanna sveitarfélagsins.

Með þessu er sveitarfélagið að bregðast við gagnrýni starfsmanna á vinnuaðstæður sínar, segir Inger Rundquist, ráðgjafi á velferðarsviðinu Jönköping, í viðtali við tímarit sænska verkalýðsfélagsins Vision.

„Við höfum misst marga hæfa starfsmenn og okkur hefur reynst erfitt að ráða inn nýtt fólk. Ekki er sótt um lausar stöður og það hefur aukið álagið á okkur sem eftir erum,“ segir Inger.

Markmiðið með þessum breytingum er að sveitarfélagið verði eftirsóknarverður vinnustaður, segir Karl Gudmundsson, sviðsstjóri velferðarsviðs Jönköping, í samtali við Jönköpings-Posten.

Hann segir að nú vanti til starfa félagsráðgjafa og félagsfræðinga sem geti tekið ákvarðanir um þjónustu og greiðslur fyrir þá sem njóta félagslegrar aðstoðar. Það hafi verið viðvarandi vandamál að manna þær stöður, hvort heldur sem er að ráða inn nýja starfsmenn eða halda í þá sem þegar eru að störfum.

Vonast er til þess að með því að stytta vinnutímann án þess að laun skerðist megi laða fleira hæft starfsfólk til stafa. Karl segir samkeppnina um starfsmenn mjög harða og þetta sé ein af þeim leiðum sem sveitarfélagið geti farið til að verða eftirsóknarverður valkostur.

Tilraunaverkefni í gangi á Íslandi

BSRB hefur barist fyrir styttingu vinnuvikunnar úr 40 stundum í 36, án launaskerðingar. Nú eru í gangi tilraunaverkefni bæði hjá Reykjavíkurborg og hjá ríkinu þar sem vinnutími á ákveðnum vinnustöðum er styttur til að kanna áhrifin. Verkefnið hjá Reykjavíkurborg hefur staðið frá árinu 2015 og lofa þær niðurstöður sem þegar eru komnar afar góðu.

Íslensk fyrirtæki og stofnanir ættu að líta til þeirra kosta sem eru því samfara að stytta vinnuvikuna. Það þarf ekki að bíða eftir tilraunaverkefni, stjórnendur geta ákveðið að prófa þessa leið með samráði við starfsmenn til að bæta líðan starfsmanna og gera vinnustaðinn að betri vinnustað.

„Við vonum að aðrir vinnustaðir taki styttingu vinnutíma til umræðu,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. „Það geta allir tekið til skoðunar vinnutíma og verkefnaskipulag innan hvers vinnustaðar með það að leiðarljósi að finna sem hagkvæmast fyrirkomulag fyrir reksturinn og starfsmennina. Það þarf ekki pólitíska ákvörðun eða þátttöku í tilraunaverkefni til þess að gera tilraunir með að stytta vinnutímann.“

Talsverður fjöldi vill vinna minna

Í síðustu kjarakönnun sem BSRB gerði kom skýrt fram að talsverður fjöldi vill vinna minna en hann gerir í dag. Jafnframt að vinnan hefði neikvæð áhrif á samverustundir með fjölskyldu, fólk upplifði meiri þreytu í störfum sínum og talsvert meira álag. Áhrifin séu þau að veikindadagar verða fleiri, langvarandi fjarvistir frá vinnu vegna álagstengdra veikinda hafa aukist og of margir sjá sér ekki fært að snúa aftur til vinnu.

Stytting vinnuvikunnar dregur úr álagi á starfsmenn og gerir starfsmönnum kleift að sinna fjölskyldu og áhugamálum betur. Rannsóknir sýna að meirihluti íslenskra fjölskyldna telur styttingu vinnutíma eina helstu lausnina varðandi álag. Til þess ættu fyrirtæki og stofnanir að horfa.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?