Vinnuvikan hjá starfsmönnum Fiskistofu hefur verið stytt úr 40 stundum í 38 án launaskerðingar í tilraunaskyni til áramóta. Mannauðsstjóri hjá stofnuninni segir að afköst hafi ekki minnkað enda auki bætt líðan starfsmanna afköstin, í samtali við RÚV.
Í frétt RÚV kemur fram að markmiðin með tilrauninni séu að auka starfsánægju og gefa starfsfólki tækifæri til að samræma betur einkalíf og vinnuskyldu án þess að dregið sé úr þjónustustigi. Náist markmiðin verði hugsanlega tekin stærri skref eftir áramót og vinnuvikan stytt enn frekar.
„Það sem ég hef rætt við okkar starfsfólk er að fólk sé bara virkilega ánægt og að langflestir séu að ná að nýta sér þetta,“ segir Hildur Ösp Gylfadóttir, mannauðs- og fjármálastjóri Fiskistofu, í samtali við RÚV. Hún segir að flestir kjósi að vinna styttri vinnudag einu sinni í viku.
Mikilvægt innlegg í kjaraviðræður
BSRB tekur þegar þátt í tveimur tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar. Annað verkefnið er unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg en hitt í samvinnu við ríkið. Í báðum tilvikum er vinnutími starfsmanna nokkurra stofnana styttur úr 40 stundum í 36. Niðurstöðurnar úr þessum tilraunaverkefnum munu verða mikilvægt innlegg í kjaraviðræður aðildarfélaga bandalagsins þegar kjarasamningar losna í mars 2019. Ítarlega er fjallað um tilraunaverkefnin hér.
Það er afar ánægjulegt að stjórnendur á vinnustöðum sjái kostina við að stytta vinnutíma starfsmanna og geri sjálfir tilraunir á vinnustöðunum til að sjá áhrifin á líðan og heilsu starfsmannanna. BSRB hvetur fleiri vinnustaði til að fylgja fordæmi Fiskistofu.
Hægt er að lesa frétt RÚV hér. Einnig er hægt að hlusta á fréttina í hádegisfréttum RÚV í Sarpinum. Fréttin um styttingu vinnuvikunnar hjá Fiskistofu hefst þegar 12 mínútur og 57 sekúndur eru liðnar af fréttatímanum.