Vinnumálastofnun mun á næstu vikum setja sig í samband við alla sem dómur Hæstaréttar Íslands um styttingu á bótatímabili atvinnuleysistrygginga hefur áhrif á og leiðbeina þeim um hugsanlegan rétt til bóta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.
Í dómi Hæstaréttar, sem féll þann 1. júní síðastliðinn, var fjallað um styttingu á bótatímabili atvinnuleysistrygginga úr 36 mánuðum í 30. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Alþingi hafi verið óheimilt að skerða rétt þeirra sem þegar voru á atvinnuleysisbótum þann 1. janúar 2015 á því að fá bætur í allt að 36 mánuði. Dómurinn hefur ekki áhrif á þá sem fengu fyrst greiddar atvinnuleysisbætur eftir 1. janúar 2015.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur bótatímabil þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir og eru að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta í dag verið leiðrétt. Það eru um 1.200 einstaklingar.
Þá mun stofnunin á næstu vikum hafa samband við alla þá sem fullnýttu 30 mánuði af bótatímabili sínu eftir 1. janúar 2015 og fram til 1. júní 2017 í því skyni að leiðbeina þeim um hugsanlegan rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Markmiðið er að búið verði að hafa samband við alla sem þetta á við um fyrir lok september. Enn fremur er það markmið Vinnumálastofnunar að hafa lokið greiðslu atvinnuleysisbóta til allra þeirra sem eiga rétt til þess á grundvelli dóms Hæstaréttar eigi síðar en í byrjun nóvember.
Nánari upplýsingar má finna í tilkynningu á vef Vinnumálastofnunar.