Rætt verður um framtíðina á vinnumarkaði á ráðstefnunni Framtíð vinnunnar sem Norræna ráðherranefndin og Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) halda í Hörpu dagana 4. og 5. apríl næstkomandi.
Á ráðstefnunni verður meðal annars fjallað um niðurstöður alþjóðlegrar nefndar um framtíð vinnunnar sem framkvæmdastjóri ILO skipaði árið 2017. Verkefni nefndarinnar var að vinna ítarlega rannsókn á framtíðinni á vinnumarkaði og hvernig best megi stuðla að félagslegu réttlæti á 21. öldinni. Skýrsla nefndarinnar var birt í janúar og er öllum aðgengileg á vefnum. Þá setti Norræna ráðherranefndin í gang rannsóknarverkefni um sama efni.
Niðurstöður nefndar ILO verða kynntar á ráðstefnunnni auk þess sem niðurstöður úr rannsókn Norrænu ráðherranefndarinnar verða kynntar. Á öðrum degi ráðstefnunna verður sjónum beint að málefnum sem tengjast kynjajafnrétti á vinnumarkaði í nánu sambandi við jafnréttisþing Sameinuðu þjóðanna.
Niðurstöðum og lykilskilaboðum ráðstefnunnar er ætlað að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda, alþjóðasamtaka og alþjóðastofnana um allan heim og verða innlegg í umræður um framtíðarhlutverk ILO.
Ráðstefnan er öllum opin. Hún fer fram á ensku en boðið verður upp á túlkun.
Hægt er að nálgast upplýsingar um ráðstefnuna, dagskrá og fleira hér.