VIRK starfsendurhæfingarsjóður, Embætti landlæknis og Vinnueftirlitið standa fyrir morgunfundi á Grand Hótel fimmtudaginn 21. febrúar um mikilvægi þess að auka vellíðan á vinnustöðum.
Aðalfyrirlesari á morgunfundinum er Vanessa King, þekktur fyrirlesari og sérfræðingur um vellíðan, þrautseigju og hamingju á vinnustöðum, en Vanessa er hér á landi að kenna í Jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands.
Auk Vanessu þá ávarpar Alma D. Möller landlæknir morgunfundinn, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir reifar rannsóknir sínar á hamingju vinnandi fólks á Íslandi og Ingibjörg Loftsdóttir kynnir Velvirk verkefnið. Fundarstjóri verður Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar má finna á vef VIRK.