Nýir stjórnendur heimsækja aðildarfélög

Fyrsta heimsóknin var til Starfsmannafélags Fjarðabyggðar. Á myndinni eru, frá vinstri: Þórdís Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Jóna Katrín Aradóttir, Þorgerður Malmquist, Sigurjón Kristinsson, Jónína Sigurðardóttir, Sonja Þorbergsdóttir og Björgúlfur Halldórsson.

Fundarherferð nýrra stjórnenda BSRB með stjórnum aðildarfélaga bandalagsins er hafin. Formaður BSRB og nýr framkvæmdastjóri bandalagsins heimsóttu Starfsmannafélag Fjarðabyggðar og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA) í vikunni.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir var kjörin formaður BSRB á þingi bandalagsins um miðjan október síðastliðinn og Magnús Már Guðmundsson tók til starfa sem framkvæmdastjóri í janúar. Það er mikilvægt fyrir þau að fá að kynna sér starfsemi allra aðildarfélaga bandalagsins og því ætla þau að reyna að heimsækja sem flest aðildarfélög á næstu vikum og mánuðum.

Sonja og Magnús fengu að sitja stjórnarfund hjá Starfsmannafélagi Fjarðabyggðar á Neskaupstað. Þar fylgdust þau með umræðum og spjölluðu við stjórnina. Því næst var haldið til Reyðarfjarðar þar sem fundað var með stjórn Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA).

Fulltrúar beggja félaga eiga það sameiginlegt að starfa hjá ríki og sveitarfélögum og sinna almannaþjónustu. Á fundunum var rætt um stöðu félaganna og komandi kjaraviðræður, áherslur BSRB, húsnæðismál og fleira. Einhugur var um það hjá báðum félögum að leggja þunga áherslu á styttingu vinnuvikunnar, sem hefur verið eitt af stóru baráttumálum BSRB undanfarin ár.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hitta fulltrúa aðildarfélaganna í þeirra umhverfi, heyra hvað brennur á þeim og kynna okkur þær aðstæður sem þeir vinna í. Þannig fáum við góða innsýn í þeirra þarfir og áttum okkur á því hvernig BSRB getur unnið með aðildarfélögunum að þeirra markmiðum,“ segir Sonja.

Fundir formanns og framkvæmdastjóra BSRB með stjórnum aðildarfélaga verða fleiri áður en langt um líður, en næst er förinni heitið til Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu.

 

Heimsókn til FOSA

Frá heimsókninni til FOSA, frá vinstri: Guðbjörg Linda Bragadóttir, Sonja Þorbergsdóttir, Þórður Vilberg Guðmundsson, Siggerður Pétursdóttir, Hafsteinn Ólason og Vilmundína L. Kristjánsdóttir.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?