Ný norræn skýrsla um stöðu trans fólks á vinnumarkaði

Forsíða nýrrar skýrslu um stöðu trans fólks á vinnumarkaði

Trans fólk er sá hópur fólk sem stendur hvað höllustum fæti á vinnumarkaði á Norðurlöndunum samkvæmt nýútkominni skýrslu NIKK, stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar. Samkvæmt skýrslunni er staðan alvarleg, til að mynda er atvinnuleysi umtalsvert hærra meðal trans fólks en almennt á Norðurlöndunum og meðaltekjur trans fólks eru lægri en almennt meðaltal á vinnumarkaði. Þegar kemur að framgangi í starfi þá er mjög lítill hluti trans fólks í stjórnendastörfum og hátt hlutfall trans fólks sinnir láglaunastörfum.

Mismunun gagnvart trans fólki er algeng strax í ráðningarferlinu. Í starfi er afar líklegt að trans fólk verði fyrir alls kyns áreitni tengdu kyni sínu og starfsöryggi þeirra er lakara en almennt gerist. Trans fólk á erfiðara með að fá störf, upplifir erfiðleika á vinnustað og er í meiri hættu á að detta út af vinnumarkaði en almennt gengur og gerist. Á vinnustöðum er mjög algengt að trans fólk sé ekki opið um kyn sitt.

Staða trans fólks þarf að breytast og þarf að nálgast verkefnið heildstætt. Bent er á ýmsar leiðir til að bæta stöðuna. Samkvæmt skýrslunni er fræðsla og þjálfun það sem fólk á vinnumarkaði þarf að fá og sinna.

Atvinnurekendur bera ábyrgð á öruggu vinnuumhverfi og vinnumenningu og eru ýmsar leiðbeiningar í þeim efnum að finna í skýrslunni. Einnig kemur skýrt fram að samstarfsfólk skipti sköpum með margvíslegum stuðningi. Velferð allra á vinnumarkaði skiptir okkur öll máli. Það er ekki á ábyrgð trans fólks að vera í stöðugu fræðsluhlutverki heldur þurfa fleiri að standa vörð og fræða, leiðrétta og taka þátt í að skapa öryggi.

BSRB mun í haust bjóða starfsfólki stéttarfélaga og trúnaðarmönnum upp á fræðslu byggða á skýrslu NIKK. Það er BSRB mikilvægt að þróa stöðugt þjónustuna og vinna að velferð allra á vinnumarkaði.

Bent er á að vinnustaðir þurfa að afla sér þekkingar og leiðsagnar. Á Íslandi bjóða Samtökin ´78 upp á aðstoð fyrir vinnustaði og hafa áratuga reynslu í þeim efnum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?