Myndrænt yfirlit yfir allar verkfallsaðgerðir

Yfirlit yfir aðgerðir má sjá á myndinni hér að neðan.

Sextán aðildarfélög BSRB hafa nú boðað til verkfallsaðgerða sem hefjast 9. mars. Aðgerðirnar eru misjafnar milli félaga og milli hópa. Sumir fara í verkföll á ákveðnum dögum á meðan aðrir verða í ótímabundnum verkföllum frá upphafi.

Til að auðvelda aðildarfélögunum og félagsmönnum þeirra að átta sig á umfangi aðgerðanna og hvenær verkföll eru boðuð hefur BSRB útbúið mynd sem sýnir hvenær aðgerðir eru boðaðar og hjá hvaða hópum.

Við hvetjum trúnaðarmenn og aðra félagsmenn aðildarfélaga sem eru á leið í aðgerðir til að deila skjalinu með sínu samstarfsfólki til að tryggja að allir átti sig sem best á því hvenær verkfallsaðgerðir munu ná til þeirra. Þá væri einnig gott að prenta út skjalið og hengja upp á kaffistofum eða öðrum stöðum þar sem starfsmenn koma saman til að allir séu meðvitaðir um aðgerðirnar framundan.

Kjarasamningsviðræður hafa haldið áfram undanfarna daga en lítið miðar í samkomulagsátt. Kjarasamningar félaganna hafa verið lausir frá 1. apríl 2019, eða í nærri 11 mánuði. Mikill hugur er í félagsmönnum aðildarfélaganna, sem samþykktu verkfallsboðunina með yfirgnæfandi meirihluta.

Félagsmenn í eftirtöldum félögum munu taka þátt í verkfallsaðgerðunum:
  • Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
  • Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
  • FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
  • Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
  • Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Sjúkraliðafélag Íslands
  • Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu
  • Starfsmannafélag Fjallabyggðar
  • Starfsmannafélag Fjarðabyggðar
  • Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
  • Starfsmannafélag Húsavíkur
  • Starfsmannafélag Kópavogs
  • Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
  • Starfsmannafélag Suðurnesja
  • Starfsmannafélag Vestmannaeyja

AðgerðaráætlunÞrjú félög til viðbótar; Landssamband lögreglumanna, Tollvarðafélag Íslands og Félag starfsmanna stjórnarráðsins, hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, en félagsmenn þeirra hafa ekki verkfallsrétt og munu félögin því ekki boða til sambærilegra aðgerða. Þá styðja fangaverðir, sem eru í Sameyki en hafa ekki verkfallsrétt, aðgerðirnar þó þeir verði að standa utan við þær.

Boðuðum verkfallsaðgerðum má skipta í tvo hluta. Annars vegar mun þorri félagsmanna hjá ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg leggja niður störf á ákveðnum dögum. Þessi hópur mun leggja niður störf dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl.

Í hinum hlutanum eru smærri hópar starfsmanna sem verða í ótímabundnu verkfalli frá og með 9. mars. Í þeim hópi eru meðal annars starfsmenn í grunnskólum og leiðbeinendur á frístundaheimilum á nær öllu höfuðborgarsvæðinu auk Akraness. Að óbreyttu má því reikna með að frístundaheimilin verði lokuð frá upphafi verkfalls þar til samningar takast. Í þeim hópi eru einnig starfsmenn hjá Skattinum og sýslumannsembættum um allt land.

Ótímabundið allsherjarverkfall frá 15. apríl

Þessar aðgerðir munu halda áfram fram í dymbilviku, en hafi samningar ekki tekist fyrir 15. apríl munu félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum fara í ótímabundið allsherjarverkfall þar til samningar hafa tekist.

Allt þetta má skoða betur á mynd sem sýnir aðgerðaráætlun aðildarfélaga BSRB. Hægt er að hlaða henni niður sem PDF-skjali hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?