Köllum eftir skýrum svörum fyrir kjósendur

Mikilvægt er að frambjóðendur tali skýrt um afstöðu til stóru málanna.

BSRB opnaði í morgun nýjan kosningavef þar sem farið er yfir þau mál sem bandalagið telur að leggja verði höfuðáherslu á í komandi þingkosningum. Bandalagið skorar á þá flokka sem berjast nú um hylli landsmanna að gera kjósendum grein fyrir afstöðu sinni til þeirra grundvallarstefnumála sem fjallað er um á vefnum.

Á vefnum er farið yfir fimm mikilvæga málaflokka; félagslegan stöðugleika, fjölskylduvænt samfélag, heilbrigðismálin, vinnumarkaðinn og húsnæðismál. Kjósendur eiga rétt á að vita hver stefna framboðanna og frambjóðenda þeirra er til þessara mikilvægu málaflokka svo þeir geti tekið upplýsta afstöðu í kjörklefanum.

Afstaða BSRB til þessara mála er skýr:

Félagslegur stöðugleiki

  • Áhersla á efnahagslegan stöðugleika án tillits til félagslegs stöðugleika mun ekki skila árangri. Styrkja þarf velferðarþjónustuna verulega og búa almenningi félagslegt öryggi. Grundvöllurinn fyrir félagslegum stöðugleika er réttlátt skattkerfi sem stuðar að auknum jöfnuði.

Fjölskylduvænt samfélag

  • Vinna þarf að því að gera samfélagið fjölskylduvænna, til dæmis með því að stytta vinnuvikuna í 36 stundir og auka sveigjanleika í starfi. Þá þarf að hækka persónuafslátt, barnabætur, aðstoð við húsnæðiskaupendur og leigjendur og lengja fæðingarorlofið.

Heilbrigðismálin

  • Hækka þarf verulega fjárframlög til heilbrigðiskerfisins og draga úr kostnaði sjúklinga. Tryggja verður að heilbrigðisþjónustan verði rekin af hinu opinbera, ekki einkaaðilum, í samræmi við kröfu yfirgnæfandi meirihluta landsmanna.

Vinnumarkaðurinn

  • Kynbundinn launamunur er algerlega óásættanlegur og honum verður að eyða tafarlaust. Gera þarf átak gegn kynskiptum vinnumarkaði og ljúka vinnu við jöfnun launa á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins.

Húsnæðismál

  • Halda verður áfram með þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðiskerfinu með uppbyggingu leigufélaga fyrir tekjulága. Taka verður næsta skref án tafar og hefja uppbyggingu almennra leigufélaga svo leiga sé raunverulegur valkostur við séreignastefnuna.

Nánar má lesa um afstöðu BSRB á kosningavef bandalagsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?