Þrátt fyrir að flestir séu sammála um að góðæri ríki á Íslandi um þessar mundir sér þess ekki stað í heilbrigðiskerfinu. Þar virðist það gilda að skorið er niður þegar illa árar en engu bætt við þegar vel árar.
Þrátt fyrir að talað sé um að 13 milljarðar renni aukalega til heilbrigðiskerfisins í fjárlögum fráfarandi ríkisstjórnar er ljóst að sú upphæð sem renna átti til Landspítalans hefði ekki dugað til að halda óbreyttum rekstri, hvað þá meira.
Á þetta bendir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í nýlegum pistli á vef Landspítalans. „Fram kom við framlagningu fjárlagafrumvarpsins, sem nú er í uppnámi, að 13 milljarðar myndu renna aukalega í heilbrigðisþjónustuna. Mátti skilja á mörgum að þarna væri um að ræða innspýtingu í kerfið,“ skrifar Páll.
„Svo er hins vegar ekki nema að hluta. Þarna er að miklum hluta um að ræða fé til að mæta verðlagsþróun og launahækkunum en einnig fé til annarra hluta kerfisins. Það sem rennur til Landspítala er hins vegar minna en ekkert þegar öll kurl eru til grafar komin, sem er alvarlegt.“
Þjóðarviljinn liggur fyrir
Þjóðin hefur kallað hátt og snjallt eftir því að verulega verði bætt í fjárframlög til heilbrigðiskerfisins.
- Í rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, á viðhorfum almennings til heilbrigðiskerfisins, kemur fram að um 92% landsmanna vill að meira fé sé varið til heilbrigðismála. Könnunin var gerð síðastliðið vor með stuðningi BSRB.
- Tæplega 87 þúsund höfðu skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins þegar undirskriftalistum var skilað inn í apríl í fyrra. Þar kröfðust landsmenn þess að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið í heilbrigðismál en ekki 8,7% eins og þá var.
Frambjóðendur í komandi þingkosningum verða eflaust spurðir út í afstöðu sína til heilbrigðiskerfisins. Þar verða þeir sem vilja atkvæði kjósenda að tala skýrt. Þeir sem ætla að fara að þjóðarvilja og byggja upp heilbrigðiskerfið þurfa að leggja fram skýrar áætlanir um hvernig það verður gert. Innantóm loforð hjálpa ekki þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.