Um 400 íbúðir eru nú á teikniborðinu hjá Bjargi íbúðafélagi, sagði Björn Traustason, framkvæmdastjóri félagsins, á morgunverðarfundi hjá BSRB í morgun. Félagið, sem var stofnað af BSRB og ASÍ, ætlar að reisa að lágmarki um 1.150 íbúðir á næstu árum.
Með stofnun Bjargs íbúðarfélags voru BSRB og ASÍ að bregðast við viðverandi ófremdarástandi á húsnæðismarkaði. Félagið, sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða, mun tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði.
Bjarg stefnir að því að opna fyrir umsóknir um íbúðir á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018. Unnið er að því að undirbúa skráningarferlið allt, en skráning mun fara fram í gegnum vef félagsins, bjargibudafelag.is.
Félagið mun á næstu árum reisa fjölmarga íbúðarkjarna. Þegar hefur verið gengið frá viljayfirlýsingu við Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ um byggingu 1.150 íbúða á næstu fjórum árum. Þá hefur félagið boðið upp á samtal við önnur sveitarfélög um allt land um uppbygging, sagði Björn á fundinum í morgun.
Á milli félagslega kerfisins og almenna markaðarins
Bjarg mun leigja tekjulágu fólki og vera valkostur fyrir þá sem ekki falla inn í félagslega húsnæðiskerfið en geta ekki með góðu móti leigt eða keypt íbúðir á almenna markaðinum. Leiguverðið á ekki að verða hærra en 25% af tekjum leigjenda, en þó verður rekstur íbúðanna að vera sjálfbær.
Til að þetta sé mögulegt verður dregið úr kostnaði eins og mögulegt er, með því að hafa færri og betur nýtta fermetra, með því að fækka bílastæðum og fleiru í þeim dúr, sagði Björn. Hann nefndi sem dæmi að mögulega verði hægt að vera með aðgengi að bílaleigubíl í skammtímaleigu, sem íbúar geti bókað í stuttan tíma í einu, og þannig komist hjá því að vera á bíl, eða að minnsta kosti sloppið við að eiga fleiri en einn.
Björn sagði hugmyndina þá að vera með blandaða byggð í þeim húsum sem félagið reisi. Þar verði bæði íbúðir í útleigu Bjargs, félagslegar íbúðir og jafnvel íbúðir leigðar í almenna kerfinu. Áherslan verði á fjölbreytni einstaklinga og fjölskyldugerða á ólíkum lífsskeiðum með ólíkan bakgrunn.
Frumleg hönnun
Emma Hildur Helgadóttir, arkitekt frá THG arkitektum, fór yfir hönnun á íbúðum Bjargs á fundinum í morgun. Þar ræddi hún sérstaklega um hús sem verða reist við Skarðshlíð í Hafnarfirði.
Hún sagði húsin verða reist í kringum óupphitað en yfirbyggt stigahús. Áherslan verður á að nýta hvern fermetra á sem bestan hátt og hafa íbúðirnar bjartar og fallegar. Þá verða rennihurðir notaðar til að hægt sé að breyta rýmum, opna eða loka af ákveðna hluta íbúða, til að auka möguleika á nýtingu þeirra.