Fólk með yfir 50% starfsgetu passar illa í kerfið

Taka þarf á fjölgun fólks á örorku- og endurhæfingarbótum með heildstæðum hætti segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.

Um þriðjungur þeirra sem fóru í gegnum starfsgetumat hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði á árinu 2015 og voru metnir með yfir 50% starfsgetu af sérfræðingum VIRK fóru í kjölfarið á fullan örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta kemur fram í grein eftir Vigdísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, um þátttöku á vinnumarkaði og vinnugetu fólks.

Vegna þess hvernig kerfið er byggt upp hafa þessir einstaklingar val um að fá annað hvort 75% örorkumat eða litlar sem engar bætur og réttindi. „Þarna vantar millistig sem hvetur til meiri þátttöku á vinnumarkaði,“ segir Vigdís í grein sinni.

Þar bendir hún á þá staðreynd að löng fjarvera frá vinnumarkaði ógni heilsu og lífsgæðum fólks meira en margir lífshættulegir sjúkdómar. Þátttaka á vinnumarkaði hafi almennt jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu.

Um 18 þúsund manns voru á örorku- eða endurhæfingarlífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2015 og hefur fjölgað hratt í þessum hópi hér á landi eins og víða erlendis. Vigdís rekur í grein sinni að VIRK hafi á síðustu níu árum tekið á móti rúmlega 11 þúsund einstaklingum og aðstoðað þá við endurhæfingu.

Þrátt fyrir mikið og gott starf hjá VIRK hefur fólki á örorku- og endurhæfingarbótum fjölgað, sem er mikið áhyggjuefni. Fyrir þessari fjölgun eru ýmsar samverkandi ástæður, eins og Vigdís rekur nánar í grein sinni.

Auðveldara að stöðva nýgengi

Vigdís bendir á ýmsar leiðir til að takast á við þennan vanda. Þær þjóðir sem hafa náð góðum árangri hafa gert það með því að nálgast málið heildstætt með breytingum á framfærslukerfi, starfsendurhæfingarþjónustu, aukinni þátttöku atvinnulífsins og breyttu viðhorfi í samfélaginu.

Þá bendir reynsla annarra til þess að snemmbær inngrip við veikindafjarveru enda mun auðveldara að stöðva nýgengi en að breyta stöðu þeirra sem þegar eru inni í kerfinu.

Að lokum nefnir Vigdís mikilvægi þess að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk fari varlega í að dæma fólk út af vinnumarkaði vegna heilsubrests. „Vinna í hæfilegu magni getur oft flýtt verulega fyrir bata og hún getur einnig verið forsenda þess að einstaklingar nái að hámarka starfsgetu sína og möguleika á vinnumarkaði,“ segir Vigdís í greininni.

Hægt er að nálgast grein Vigdísar í heild sinni hér.

Nánar má fræðast um starfsemi VIRK starfsendurhæfingar á vef VIRK.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?