Gerum samfélagið fjölskylduvænna

Það er auðvelt að venjast því að hafa nægan tíma fyrir fjölskylduna í sumarfríinu.

Í sumarfríinu er auðvelt að venjast því að eiga góðar samverustundir með vinum og fjölskyldu. Það getur verið erfitt að finna tíma í amstri dagsins þegar allir þurfa að fara í vinnu og skóla. BSRB vill fjölga þessum gæðastundum og gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna.

Þeir sem þekkja til lífsins á hinum Norðurlöndunum vita að þar virðist vera auðveldara að samræma vinnuna og fjölskyldulífið. Það helgast ekki síst af því að vinnudagurinn er almennt styttri og sveigjanleikinn oft meiri. Þá hafa foreldrar í fæðingarorlofi almennt mun meiri réttindi og geta því varið lengri tíma með börnunum.

BSRB hefur lengi lagt áherslu á fjölskylduvænt samfélag. Fjallað var sérstaklega um þetta mikilvæga mál í stefnu bandalagsins, sem mörkuð var á 44. þingi bandalagsins haustið 2015.

Með orðalaginu fjölskylduvænt samfélag er átt við samfélag sem gerir launafólki kleift að samræma fjölskyldulífið og atvinnu með betri hætti en nú gerist. Fjölskylduvænt samfélag byggist á jafnri stöðu kynjanna. Eyða verður launamuni kynjanna og jafna stöðu foreldra við uppeldi barna.

Til að svo megi verða þarf til dæmis að bæta rétt foreldra í fæðingarorlofi og tryggja börnum dagvistunarúrræði strax og því lýkur. Fæðingarorlofskerfið þarf að virka hvetjandi á báða foreldra að taka jafn langan tíma með barninu.

Stefnt að 36 tíma vinnuviku

Vinnutíminn er einnig stór þáttur í því hversu erfitt getur reynst að samþætta fjölskyldulífið vinnunni. Stefna BSRB er sú að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 án þess að laun skerðist. Rannsóknir benda til þess að hægt er að stytta vinnutímann með þessum hætti án þess að það bitni á framleiðni.

Til að vinna þessu stefnumáli brautargengi tekur BSRB þátt í tveimur tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar. Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar hefur nú verið í gangi í um tvö ár, og lofa þær niðurstöður sem kynntar hafa verið góðu. Þá fór tilraunaverkefni BSRB og ríkisins í gang síðastliðið vor.

Draga úr árekstrum milli skóla og vinnu

Eigi samfélagið að verða fjölskylduvænna en það er í dag þarf einnig að skoða vel samspil atvinnulífsins, skóla og heimilanna. Þar þarf markmiðið að vera að draga úr árekstrum og þar með minnka álagið á launafólk. Þetta mætti til að mynda gera með sérstökum frídögum sem koma til móts við þarfir foreldra vegna vetrarfría, starfsdaga og annarra daga þar sem skólar eru lokaðir. Þá þarf að auka réttindi fólks til fjarveru frá vinnu til að sinna veikum börnum, maka, foreldrum eða öðrum nákomnum.

Sveigjanleg starfslok eru einnig mikilvægur þáttur í fjölskylduvænna samfélagi. Auka þarf möguleika launafólks til að minnka starfshlutfall og hefja töku á lífeyri sínum að hluta, eða hætta að vinna fyrr eða síðar á ævinni en nú er gert ráð fyrir.

Lestu meira um þetta í stefnu BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?