Forsvarsmenn Sameykis hitta viðsemjendur

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis (til hægri), og Garðar Hilmarsson, varaformaður félagsins, hittu í gær Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Forsvarsmenn Sameykis, sem varð til við sameiningu SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, hittu í gær forsætisráðherra og borgarstjóra og afhentu þeim formlega tilkynningu um sameiningu félaganna.

Þeir Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, og Garðar Hilmarsson, varaformaður félagsins, hittu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í gærmorgun. Seinna um daginn áttu þeir svo fund með Degi. B. Eggertssyni borgarstjóra.

Sameinað félag gerir kjarasamninga við bæði ríkið og Reykjavíkurborg fyrir hönd fyrrum félagsmanna SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og hefur yfirtekið réttindi og skyldur samkvæmt kjarasamningi við viðsemjendur. Félagið, sem varð þriðja stærsta stéttarfélag landsins við sameininguna, mun hér eftir annast kjarasamningsgerð og eru þar ríkið og Reykjavíkurborg stærstu viðsemjendurnir.

Í tilkynningu frá Sameyki kemur fram að félagið vænti góðs samstarfs við viðsemjendur sína í framtíðinni. Kjarasamningar eru lausir í lok mars og því undirbúningur fyrir viðræður á fullum skriði.

 

Forsvarsmenn Sameykis með borgarstjóra

Vel fór á með Árna Stefáni (til hægri), Garðari og Degi á fundi á skrifstofu borgarstjóra í gær.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?