Byrjað að stytta vinnuvikuna á öflugum vinnustöðum

„Þetta eru þvílík lífsgæði sem við erum að fá,“ segir Egill Kristján Björnsson, sem vinnur hjá Fangelsismálastofnun.

„Það eru allir mjög ánægðir með þetta og við sem erum byrjuð að stytta vinnuvikuna getum ekki annað en lofað þetta í hástert. Þetta eru þvílík lífsgæði sem við erum að fá,“ segir Egill Kristján Björnsson, trúnaðarmaður Sameykis hjá Fangelsismálastofnun ríkisins á Hólmsheiði.

Fangelsismálastofnun er einn þeirra fyrirmyndarvinnustaða sem þegar hafa innleitt styttingu vinnuvikunnar hjá sínu starfsfólki sem vinnur dagvinnu. Vinnuvika starfsfólksins styttist úr 40 stundum í 36.

Þeim vinnustöðum fjölgar nú ört sem hafa lokið umbótasamtali og starfsfólk er ýmist byrjað að stytta vinnuvikuna eða veit hvernig það verður gert nú um áramótin. Um miðjan nóvember höfðu 19 stofnanir ríkisins sent inn staðfestingu á því að innleiðingarferlinu fyrir styttingu vinnuvikunnar sé lokið.

Samtals starfa um 150 félagsmenn í aðildarfélögum BSRB á þessum vinnustöðum og stærstur hluti þeirra, nærri fjórir af hverjum fimm, stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36. Útfærslan er mismunandi en algengast er að hver vinnudagur styttist aðeins, þó einnig séu margir sem taka út styttinguna hálfan dag í viku, eða einn dag aðra hverja viku eftir því hvað hentar.

Hámarsstytting hjá Fangelsismálastofnun

Hjá Fangelsismálastofnun, þar sem farið var í hámarksstyttingu, er útfærslan mismundandi milli starfsmanna og starfsstöðva. Valin var leið sem hentar verkefnum hvers og eins, segir Egill. Þannig hætta sumir starfsmenn á hádegi alla föstudaga, aðrir eru í fríi annan hvern föstudag og enn aðrir taka styttinguna út daglega.

Egill segir að lögð hafi verið áhersla á að þjónustan skerðist ekki heldur hafi vinnulagið verið yfirfarið. Á Hólmsheiðinni hafi til dæmis niðurstaðan verið sú að föstudagarnir hafi verið rólegri og því heppilegt að taka út styttingu á þeim dögum. Samhliða verða vinnuferlar einfaldaðir, rafrænar lausnir nýttar betur og skipulagi funda breytt eftir því sem hægt er.

Hann segir að engin breyting hafi verið gerð á kaffitímum. Starfsfólk hafi ekki verið með fasta tíma fyrir kaffipásur og það breytist því ekkert við styttinguna. Eftir sem áður geti starfsfólk sótt kaffi og tekið sér hvíld eftir þörfum. „Það er eins með matartímana, við förum og fáum okkur að borða en förum svo beint áfram að vinna.“

Biðin styttist hjá vaktavinnufólki

Stytting vinnuvikunnar nær aðeins til starfsfólks sem vinnur dagvinnu. Hjá Fangelsismálastofnun starfa einnig starfsmenn í vaktavinnu, en vinnuvika þeirra mun styttast þann 1. maí 2021. „Maður heyrir kannski af smá öfund hjá vaktavinnufólkinu en þau samgleðjast okkur auðvitað líka með að þetta sé byrjað hjá okkur,“ segir Egill. Útfærslan á styttingunni er flóknari hjá vaktavinnufólki, en á móti kemur að vinnuvika þeirra styttist sjálfkrafa úr 40 stundum í 36, og getur styst allt niður í 32 stundir hjá þeim sem vinna á þyngstu vöktunum. Það er því vel þess virði að bíða aðeins eftir því.

Egill segir samstarfsfólk sitt nota aukinn frítíma með mismunandi hætti. „Margir fara að stússast fyrir heimilið, þrífa, versla eða annað í þeim dúr. Ég sé fyrir mér að nota þennan tíma fyrir mig. Fara á skíði, þegar snjórinn kemur, og sinna sjálfum mér aðeins. Þetta er auðvitað þvílíkur lúxus.“

Hægt er að kynna sér allt um styttinguna á vefnum styttri.is og á betrivinnutimi.is.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?