Nú þegar stór hluti landsmanna er í sumarfríi og ferðalög til útlanda takmörkuð verulega eru eflaust margir á ferð um landið. Sumarið er enda frábær tími til að skoða náttúruna og kíkja í kaffi eða grill til vina og ættingja. Lög um náttúruvernd tryggja ferðamönnum rétt til að fara um landið en þó með þeim skilyrðum að vel sé gengið um og náttúrunni ekki spillt.
Þessi réttur sem mörgum Íslendingum finnst sjálfsagður er ekki jafn sjálfsagður annars staðar í heiminum og því mikilvægt að áfram sé staðin varðstaða um þessi réttindi. Eitt af því sem allir ferðamenn geta gert til að hjálpa til við að verja þennan rétt er að gæta þess að skemma ekki viðkvæma náttúru og fara að tilmælum landeigenda og annarra sem reyna að verja viðkvæm svæði ágangi. Svo þarf að sjálfsögðu að gæta þess að skilja ekki eftir rusl og jafnvel taka með sér til baka það sem aðrir hafa skilið eftir til að skilja við landið í betra ástandi en það var þegar komið var á staðinn.
Ábyrgir ferðamenn um allan heim hafa alltaf í huga þessa einföldu þumalputtareglu: „Tökum bara ljósmyndir, skiljum aðeins fótsporin eftir og drepum ekkert annað en tímann.“
Þó erlendir ferðamenn séu ekki margir á landinu um þessar mundir er sjálfsagt að minna erlenda gesti á þessar einföldu reglur. Flestir ganga vel um en það þarf ekki marga svarta sauði til að skemma fyrir öllum hinum. Þá skiptir einnig máli að byggja upp aðstöðu sem dregur úr álaginu sem mikill fjöldi ferðamanna getur haft á náttúruna og er slík uppbygging í gangi víða þetta sumar til að búa landið undir ásókn ferðamanna á næstu árum.