Ungt fólk innan vébanda félaga ASÍ og BSRB kom saman á fræðslu- og tengsladögum ASÍ-UNG í Keflavík 11. - 12. apríl. Yfirskrift fundarins var „Framtíð vinnumarkaðarins.”
Gestir fundarins voru á aldrinum 18 - 35 ára og sinntu fjölbreyttum störfum en áttu það sameiginlegt að hafa áhuga á að bæta kjör launafólks og vilja efla íslenskt velferðarsamfélag.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, blés fundargestum baráttuanda í brjóst í ræðu á fundinum þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi ungs fólks innan hreyfingarinnar. „Stundum getur verkalýðsbaráttan einkennst of mikið af vörn fyrir það sem hefur áunninst, en það er ekki síður mikilvægt að vera sífellt að endurhugsa hlutina og þora að sækja fram og byggja á skýrri framtíðarsýn. Þar skiptir ykkar þátttaka gríðarlegu máli því ungt fólk er hreyfiafl framfara innan verkalýðshreyfingarinnar, rétt eins og í samfélaginu öllu,” sagði Sonja. Verkalýðshreyfingin er og á að vera vettvangur framfara, enda byggir hún á róttækum hugmyndagrunni og gildum um jafnrétti og samstöðu. Okkar barátta hefur og getur skilað ótrúlegum árangri - en það er einungis með skýrri sýn og sterkum samtakamætti sem við náum stærstu breytingunum í gegn.”
BSRB hvetur ungt fólk af öllum kynjum í aðildarfélögum bandalagsins að láta til sín taka í sínum stéttarfélögum og láta verkalýðsbaráttu sig varða.