Kvennaár 2025 - Kröfur Kvennaverkfalls & heimildamynd

Þann 24. október standa 34 samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks fyrir viðburði í Bíó Paradís kl. 18:30, þar sem framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 kynnir sameiginlegar kröfur gagnvart stjórnvöldum, nákvæmlega einu ári eftir Kvennaverkfall og stærsta baráttufund Íslandssögunnar.

Að viðburði loknum, verður „Dagurinn sem Ísland stöðvaðist,” spennandi heimildamynd eftir Pamelu Hogan og Hrafnhildi Gunnarsdóttur um Kvennafrídaginn 1975 frumsýnd. Að henni lokinni ætlum við að styrkja böndin yfir léttum veitingum og samsöng á Áfram stelpur!

Hin magnaða kvennasamstaða þvert á pólitískar línur árið 1975 lagði hornsteininn að stórkostlegum þjóðfélagsbreytingum. En þrátt fyrir þrotlausa baráttu í hálfa öld búa konur enn við misrétti og ofbeldi. Við ætlum ekki að bíða í 50 ár til viðbótar!

Nú tökum við höndum saman enn á ný og fylkjumst bak við kröfurnar. Við vitum sem er að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Sagan sýnir okkur það. Við getum, þorum og viljum!

Við hvetjum öll til að fjölmenna á viðburðinn og kaupa miða á frumsýninguna sem hefst kl. 19:15.

Myndin er aðallega á ensku en með íslenskum texta og Bíó Paradís er aðgengilegt fyrir öll.

Heimildamyndin The Day Iceland Stood Still - Dagurinn sem Ísland stöðvaðist fer síðan í almennar sýningar í Bíó Paradís. Miða og frekari upplýsingar má nálgast á vef Bíó Paradís.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?